Forgangsraða fjármunum í grunnþjónustu

Vigdís Hauksdóttir, borgarstjóraefni Miðflokksins, kynnti helstu stefnumál flokksins fyrir komandi …
Vigdís Hauksdóttir, borgarstjóraefni Miðflokksins, kynnti helstu stefnumál flokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar ásamt fleiri frambjóðendum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Miðflokkurinn í Reykjavík ætlar að forgangsraða fjármunum borgarinnar í grunnþjónustu og margfalda húsnæði fyrir fjölskyldur og ungt fólk í úthverfum borgarinnar.

Þetta er meðal þess kom fram á fundi flokksins í dag þar sem Vigdís Hauksdóttir, borgarstjóraefni flokksins, kynnti helstu stefnumál flokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar ásamt fleiri frambjóðendum.

Frétt mbl.is: Framboðslisti Miðflokksins í Reykjavík kynntur

„Miðflokkurinn stendur fyrir blómstrandi borg, okkur finnst vanta svolítið upp á það að huga að borginni,“ sagði Vigdís.

Skóla- og frístundamál eru fyrirferðamikil á stefnuskrá flokksins en hann hyggst bjóða upp á gjaldfrjálsan mat í grunnskólum borgarinnar, fjölga kennslustundum í verk-, tækni- og listgreinum grunnskóla, tvöfalda upphæð Frístundakortsins, úr 50.000 kr. í 100.000 kr., og stórefla Vinnuskóla fyrir 13 til 18 ára með auknu starfsvali.

Skipulagsmál eru einnig á meðal helstu áhersluflokka Miðflokksins og vill flokkurinn skipuleggja nýtt svæði fyrir þjóðarsjúkrahús að Keldum. Þá vill flokkurinn að Reykjavíkurflugvöllur verði „áfram hjarta allra landsmanna í höfuðborginni“ og lögð verður áhersla á að bæta gatnakerfið og stytta ferðatímann fyrir fjölskyldubílinn

Ítarlegri stefnuskrá flokksins verður birt á Facebook-síðu Miðflokksins á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert