Segir hægt að stytta afgreiðslutíma um 90%

Dóra Björt Guðjónsdóttir, Eyþór Arnalds og Ingvar Jónsson á fundinum …
Dóra Björt Guðjónsdóttir, Eyþór Arnalds og Ingvar Jónsson á fundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eyþór Arnalds, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segist vilja stytta afgreiðslutíma aðila sem standa að húsnæðisuppbyggingu í borginni um 50% og í mörgum tilfelllum um 90%. Þessi orð lét Eyþór falla á opnum fundi á vegum Samtaka atvinnulífsins, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka iðnaðarins og Samtaka verslunar og þjónustu í Gamla bíó í morgun, þar sem oddvitar sjö framboða í borginni ræddu um sambúð borgar og atvinnulífs. Ekki fylgdi þó orðum Eyþórs hvernig væri hægt að stytta afgreiðslutímann svona gríðarlega.

Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins stýrði umræðum um húsnæðismál á fundinum og spurði oddvitana út í þeirra áherslur í þeim efnum.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði að borgin hefði undanfarin ár lagt áherslu á leigu- og búseturéttaríbúðir og að reynslan sýndi að Reykjavíkurborg þyrfti að stýra uppbyggingunni til að tryggja að hagkvæmar íbúðir kæmu inn á markaðinn. Hann sagði einnig að það væri stórt verkefni að koma í veg fyrir eftirmarkað með lóðir.

Sigurður sagði í inngangsorðum sínum að hlutfallslegar fáar íbúðir væru í byggingu í Reykjavík miðað við nágrannasveitarfélögin og því svaraði borgarstjóri með því að benda á að á síðustu árum hafa nágrannasveitarfélögin vaxið, en væru nú að verða búin með sitt land. Kópavogsbær væri búinn með sitt land og Garðabær og Mosfellsbær ættu ekkert byggingarland. Því væri þétting byggðar framundan þar.

Kerfið þunglamalegt

„Valkostirnir eru á milli þess að þétta byggð eða þétta umferð,“ sagði Dagur, en verið er að byggja íbúðir víða á eftirsóttum svæðum í Reykjavík og töluvert hefur verið rætt um að þessar íbúðir henti ekki fyrir fyrstu kaupendur, þar sem þær séu of dýrar.

Eyþór Arnalds sagði að 40 milljóna verðmiði á íbúðum fyrir fyrstu kaupendur væri útkoma þeirrar stefnu sem meirihlutinn hefði rekið síðustu ár. Hann sagði að það vantaði „þennan eðlilega vöxt höfuðborgarinnar“ og að byggja þyrfti á nýjum svæðum.

Þá ræddi Eyþór um að einfalda þurfi stjórnkerfið og stytta boðleiðir svo að ákvarðanatakan verði hraðari. Báknið væri mjög þungt og því þyrfti að breyta.

Þétting byggðar eða þétting umferðar eru valkostirnir sem borgin stendur …
Þétting byggðar eða þétting umferðar eru valkostirnir sem borgin stendur frammi fyrir að mati borgarstjóra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar sagði sömuleiðis að kerfið væri of þunglamalegt og að hér þyrfti að fara í gegnum 17 stjórnsýsluleg skref til að byggja húsnæði á meðan að í Danmörku væru skrefin sjö talsins.

Hún sagði jafnframt að Viðreisn talaði fyrir þéttingu byggðar á öllum svæðum borgarinnar og nefndi að flokkurinn vildi spýta í lófana í Úlfarsárdal.

Dýrt að byggja dreift

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata segir að stefna flokksins sé að leggja áherslu á áframhaldandi þéttingu byggðar og nefndi Vogabyggð, Ártúnshöfða og Skerjafjörð sem dæmi um uppbyggingarsvæði.

„Það er dýrt að byggja dreift,“ sagði Dóra og bætti því við að ungt fólk vildi búa í skemmtilegri borg sem hefur nærþjónustu inni í hverfunum. Gríðarmikið pláss væri á ýmsum svæðum innan borgarmarkanna sem mætti byggja upp á.

„Það er ekkert nýtt hverfi í kortunum,“ sagði Ingvar Jónsson, oddviti Framsóknarflokks. Hann sagði að allt of fáum lóðum hefði verið úthlutað og að Framsóknarflokkurinn vildi skipuleggja ný hverfi í Geldinganesi, á Keldum og í Úlfarsárdal.

Líf Magneudóttir oddviti Vinstri grænna sagði að sér þætti umræða um lóðaframboð þrálát og leiðinleg og benti á að borgin hefði nýverið verið með lóðaúthlutun í Úlfarsárdal, þar sem einungis 73% lóðanna í boði hefðu farið út. Hún sagði að borgin gæti haft áhrif á leigumarkaðinn í gegnum Félagsbústaði, til þess að fjölga íbúðum fyrir sína fátækustu íbúa.

Fallegustu lóðirnar á Kjalarnesi

Það væri hægt að byggja 1000 íbúðir á mjög skömmum tíma á Kjalarnesi, sagði Vigdís Hauksdóttir leiðtogi Miðflokksins í borginni. Hún sagði að jafnframt „þrengingarstefna“ borgaryfirvalda hefði torveldað aðkomu fjölskyldubílsins að þeim stöðum þar sem verið er að þétta og nefndi að hægt væri að þétta byggð í úthverfum borgarinnar rétt eins og í miðborginni og nágrenni.

Vigdís sagði að fallegustu lóðirnar í Reykjavík væru á Kjalarnesi, þar væri sjávarsýn og „stutt í allt“ en forsenda þeirra uppbyggingar væri þó lagning Sundabrautar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert