„Hættið að röfla um borgarlínu“

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. Skjáskot

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir að slæmt gengi Vinstri grænna í sveitarstjórnarkosningunum megi rekja til þess að flokkurinn hafi brugðist þeim sem standa höllum fæti í samfélaginu.

Þetta sagði Inga í sjón­varpsþætt­in­um Silfrið sem er sýnd­ur á RÚV en þar ræddu for­menn stjórn­mála­flokk­anna á Alþingi niður­stöðu sveit­ar­stjórna­kosn­ing­anna. 

Ég vil gjarnan taka til hendinni hérna. Ástandið hefur aldrei verið verra. Ég trúi því ekki að það verði sama staða uppi eftir þessu skýru skilaboð,“ sagði Inga þegar Fanney Birna Jónsdóttir, annar þáttarstjórnendanna, spurði hana hvort hún vildi að flokkurinn kæmi að meirihlutasamstarfi í borginni. 

Egill Helgason þáttarstjórnandi spurði hana hvort að hún vildi frekar fara í samstarf með Sjálfstæðisflokkinum eða núverandi meirihluta. 

„Ég vil fyrst og fremst taka utan um fólkið okkar og að þau hætti að röfla um þessa borgarlínu sem kostar alltof mikla peninga. Forgangsröðunin er kolröng og að ætla að leggja auknar álögur á borgarbúa sem eru nú þegar að sligast undan hæsta mögulega útsvari sem lagalega er hægt að slengja á þá...við kærum okkur ekki um neitt slíkt.“

„Þá ertu að segja mér að þú myndir frekar vilja fara í samstarf með Miðflokknum og Sjálfstæðisflokknum,“ sagði Egill. 

„Ef þeir eru að fara að gera það sem ég er að kalla eftir. En ef þeir eru ekki að fara að gera það þá verðum við bara ein,“ sagði Inga. 

Fátæka fólkið enn að bíða

Inga gagnrýndi Vinstri græna í máli sínu en hún sagði að það hefði verið mikilvægt fyrir félagshyggju í landinu að Flokkur fólksins hefði fengið mann inn í borgarstjórn.

„Þegar við erum að tala um félagshyggju og hvernig VG hefur reitt af í þessum kosningum er það ekki síst fyrir það að stór hluti landsmanna treystu á að það væri rétt og satt að það ætti að taka utan um fólk sem stæði höllum fæti í samfélaginu. Fátæka fólkið er að bíða eftir þessu réttlæti.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna andmælti og sagði að meirihlutinn í Reykjavík hefði staðið fyrir félagslegar áherslur. Fjárhagsaðstoð hefði hækkað, álögur á barnafjölskyldur lækkað og uppbygging á félagslegu húsnæði væri meiri en í nokkru öðru sveitarfélagi. 

Segir stöðu sína óbreytta

Katrín sagði í Silfrinu að hún væri ósátt með niðurstöðu kosninganna en benti á að Vinstri grænum hefði jafnan gegnið betur í Alþingiskosningum en sveitarstjórnarkosningum. Egill Helgason spurði hana hvort úrslit kosninganna breyttu einhverju um stöðu hennar sem formaður flokksins. 

„Ég er stjórnmálamaður sem velti reglulega fyrir mér minni stöðu vegna þess að ég tel ekki að hún sé sjálfgefin. Ég er búin að fara víða um land og mín niðurstaða er sú að ég er ekki að fara að gefast upp,“ sagði Katrín. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert