Viðreisn í lykilstöðu

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Pawel Bartoszek verða borgarfulltrúar Viðreisnar næsta …
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Pawel Bartoszek verða borgarfulltrúar Viðreisnar næsta kjörtímabil. Ljósmynd/Aðsend

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, segir Viðreisn vera í lykilstöðu varðandi myndun næsta meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. 

Lokatölur lágu ekki fyrir í Reykjavík fyrr en á sjöunda tímanum í morgun og voru miklar sveiflur á fylgi flokkanna allt frá fyrstu tölum þangað til í síðustu tölum. Reyndust þær síðan svipaðar fyrstu tölum á tólfta tímanum í gærkvöldi. Um tíma í nótt leit út fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn fengi níu borgarfulltrúa en Samfylkingin sjö. Raunin varð sú að Sjálfstæðisflokkurinn fékk átta borgarfulltrúa og Samfylkingin sjö. 

„Gamli meirihlutinn er með tíu borgarfulltrúa á meðan þrír flokkar, sem virðast samstíga málefnalega, það er Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur og Flokkur fólksins, eru einnig með tíu borgarfulltrúa. Ef þessir þrír flokkar hefðu fengið tólf borgarfulltrúa þá hefði manni fundist það nánast sjálfgefið að þeir mynduðu meirihluta en núna er það þannig að Viðreisn getur valið," segir Ólafur og bætir við að miðað við áherslurnar fyrir kosningar þá virðist Viðreisn líklegri til þess að vilja fara í samstarf með gamla meirihlutanum. Þetta þýði einnig það að flokkurinn geti farið fram á að fá lykilembætti og að þeirra áherslumál nái fram að ganga. 

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði.
Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ólafur segir að miðað við hvernig Viðreisn hafi talað, ekki síst Pawel, þá eigi flokkurinn meiri samleið með núverandi meirihluta heldur en flokkunum þremur, Sjálfstæðisflokknum, Miðflokknum og Flokki fólksins.

Hann segir að ólíklegt sé að Viðreisn geri kröfu um stól borgarstjóra og heldur sé flokkurinn tilbúin til þess að samþykkja Dag B. Eggertsson sem borgarstjóra áfram. Ólafur tekur fram að þetta séu aðeins hugleiðingar hans skömmu eftir að lokatölur voru birtar í Reykjavík. 

Spurður um breytingar frá síðustu borgarstjórnarkosningum segir Ólafur jákvætt að sjá að kjörsókn hafi aukist en hún er um 67% á landinu. Fyrir fjórum árum fékk Samfylkingin óvenjumikið fylgi eða 31,9% og bætti við sig tveimur borgarfulltrúum, fór úr þremur í fimm. Sjálfstæðisflokkurinn fékk þá 25,7% atkvæða og fjóra borgarfulltrúa og tapaði einum. Nú fékk Samfylkingin 25,9% og Sjálfstæðisflokkurinn 30,8%. 

Dagur B. Eggertsson, Vigdís Hauksdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir og Sanna …
Dagur B. Eggertsson, Vigdís Hauksdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir munu öll sitja í borgarstjórn næstu fjögur árin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

VG misstir 3,75% af sínu fylgi á milli kosninga en Sósíalistaflokkurinn kemur nýr inn með einn borgarfulltrúa. Sanna Magdalena Mörtudóttir er ný í borgarstjórn Reykjavíkur og segir Ólafur að talað sé um að hún hafi staðið sig mjög vel í kosningaþættinum á RÚV á föstudagskvöldið.

Kári skrifar Einari bréf

Mjög hefur verið rætt á samfélagsmiðlum um spurningu sem stjórnandi þáttarins, Einar Þorsteinsson, beindi að Sönnu varðandi Gunnar Smára Egilsson og hefur meðal annars Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar sent opið bréf til Einars þar sem hann gagnrýnir framkomu hans harðlega.

Segir Kári að Einar hafi brotið allar siðareglur heilbrigðrar blaðamennsku. Oft krefjist blaðamenn þess að ráðherrar segi af sér verði þeim á í messunni. „Eitt er víst að blaðamaður við erlenda sjónvarpsstöð sem gerðist uppvís að svona ósóma myndi flýta sér að segja upp þannig að hann yrði ekki rekinn áður,“ skrifar Kári. 

Minnir á Johanne

Ólafur segir að Sanna minni sig stundum á Johanne Schmidt-Niel­sen, þingmann En­heds­listen sem er banda­lag vinstri grænna (Rauð-græna banda­lagið) en hún hefur vakið mikla athygli sem öflugur leiðtogi flokksins. 

Þessi árangur Sósíalistaflokksins hér minnir töluvert á stöðuna þar og víðar, segir Ólafur í samtali við mbl.is. Hefðbundnir sósíalistaflokkar, sérstaklega í Danmörku en líka í Noregi, búa til rými vinstra megin við sig þegar þeir fara í ríkisstjórnarsamstarf. Eitthvað sem þessir flokkar gerðu aldrei áður. „Enhedslisten er skýrasta dæmið um það,“ segir Ólafur Þ. Harðarson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert