Ýmislegt sameini Viðreisn og Pírata

Dóra Björt fundaði með Samfylkingunni, Vinstri grænum og Viðreisn í …
Dóra Björt fundaði með Samfylkingunni, Vinstri grænum og Viðreisn í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík, segist hafa átt góðan, óformlegan fund með Viðreisn, Samfylkingunni og Vinstri grænum í dag.

„Það var mjög góður andi á fundinum. Það er ýmislegt sem sameinar, sérstaklega Viðreisn og Pírata. Þetta eru báðir frjálslyndir flokkar og uppteknir af því að bæta þjónustu við borgarbúa,“ segir Dóra Björt og nefnir rafræna þjónustumiðstöð sem dæmi um það.

„Við Píratar erum ánægðir með það hvernig við erum búnir að mála upp frekar skýrt val,“ bætir hún við og nefnir að fjórir flokkar hafi núna útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn.

„Við lítum svo á að þetta sé val á milli frjálslyndrar borgar jafnréttis og velferðar á móti borgar íhalds og fortíðar. Þetta er mjög skýrt val. Það sem við Píratar höfum upp á að bjóða í þessum viðræðum er að okkur er treystandi.“

Bíða og sjá hvaða borg Þórdís velur

Dóra Björt fundaði einnig með grasrót Pírata í dag og segir hún þann fund einnig hafa gengið vel.

Spurð út í framhald mála segir hún ekkert ákveðið í þeim efnum og nefnir að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, hafi hitt ýmsa í dag. „Við erum bara að bíða og sjá hvaða borg hún velur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert