Eiga eftir að ræða verkaskiptingu

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir ánægjulegt að samkomulag hafi náðst um meirihlutaviðræður Samfylkingarinnar, VG, Pírata og Viðreisnar.

Spurður hvort þetta hafi verið erfið fæðing segir hann að fulltrúar flokkanna séu að kynnast. „Mér finnst hafa skapast gott traust í samskiptum síðustu daga og út af fyrir sig í gegnum kosningabaráttuna,“ segir Dagur.

„Þó að þessir flokkar séu ólíkir og fólk komi að málum úr ólíkum áttum finn ég fyrir mjög miklum metnaði fyrir hönd borgarinnar og að gera vel fyrir Reykjavík,“ segir hann.

„Það skiptir mjög miklu máli þegar fólk er að mynda meirihluta til fjögurra ára, því það geta komið alls konar mál upp og þá þarf fólk að bera gæfu til þess að raða sér niður á niðurstöðu.“

Dagur B. Eggertsson, Vigdís Hauksdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir og Sanna …
Dagur B. Eggertsson, Vigdís Hauksdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. mbl.is/Eggert

Eiga eftir að ræða verkaskiptingu

Hann bætir við að í sínum huga geti verið styrkur að vera með fjölbreyttan og góðan hóp, að því gefnu að það ríki gott traust og að heilindi séu í öllum samskiptum. „Það held ég að sé styrkleiki á þessum hópi. Við erum að mynda nýjan meirihluta á nýjum grunni og það er mjög spennandi.“

Spurður út í orðróm, um að Viðreisn hafi krafist þess að fá borgarstjórastólinn í viðræðum sínum við aðra flokka undanfarna daga, segir Dagur að Viðreisn hafi borið þær sögusagnir til baka í dag.

„Við eigum eftir að ræða verkaskiptingu og annað en ég á ekki von á öðru en að það geti allir blómstrað í þessum nýja meirihluta.“

Dagur B. Eggertsson og Eyþór Arnalds.
Dagur B. Eggertsson og Eyþór Arnalds. mbl.is/Arnþór

Vildi fara með Reykjavík aftur til fortíðar

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, sagði við mbl.is fyrr í kvöld að samkomulagið um meirihlutaviðræðurnar sé ekki í anda úrslita kosninganna og að gamli meirihlutinn í borginni ætti að fara í frí. „Eyþór vildi fara með Reykjavík aftur til fortíðar og það reyndist ekki vera meirihluti fyrir þeirri stefnu,“ segir Dagur, spurður út í ummæli Eyþórs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert