Samstarf Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna endurnýjað í Mosfellsbæ

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, og Bjarki Bjarnason, oddviti Vinstri grænna …
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, og Bjarki Bjarnason, oddviti Vinstri grænna í Mosfellsbæ, við undirritun málefnasamnings um áframhaldandi meirihlutasamstarf flokkanna í Mosfellsbæ. Ljósmynd/Aðsend

Mál­efna­samn­ing­ur Sjálf­stæðis­flokks og Vinstrihreyf­ing­ar­inn­ar – græns fram­boðs í Mosfellsbæ hefur verið undirritaður. Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar og oddviti Sjálfstæðisflokksins, og Bjarki Bjarnason, oddviti Vinstri grænna, undirrituðu samninginn við Hlégarð á þriðjudag.

D- og V-listi fengu fimm af níu bæjarfulltrúum kjörna í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum og halda meirihlutasamstarfi sínu áfram sem hófst árið 2006.

Haraldur er ánægður með niðurstöðuna og samstarfið við Vinstri græna. „Með okkar góðu gildi að leiðarljósi, virðingu – jákvæðni – framsækni og umhyggju eru okkur allir vegir færir. D- og V- listi hafa verið við stjórnvölinn undanfarin 12 ár og á þeim tíma hefur samfélagið eflst og þjónustan tekið stakkaskiptum. Við ætlum að halda áfram á sömu braut, gera enn betur og sjá til þess að áfram sé best að búa í Mosfellsbæ,“ er haft eftir bæjarstjóranum í tilkynningu. 

Skólamál, íþróttamannvirki, velferðarmál og umhverfismál eru meðal þess sem finna má í málefnasamningnum. „Í samningnum er talað skýrt í öllum málaflokkum sem snerta alla bæjarbúa með einum eða öðrum hætti. Mosfellingum fjölgar ört um þessar mundir og við erum reiðubúin að takast á við verkefnin sem stækka með hverju árinu,“ er haft eftir Bjarka í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert