Nóg að gera í pólitíkinni í dag

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. Samsett mynd

Landsþing Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Viðreisnar fara fram í dag, víðs vegar um landið. Öll hefjast þau innan skamms og verður sagt frá framvindu mála á mbl.is. 

Ræður formanna flokkanna bera þar hæst en þær verða allar í beinu streymi hér á vefnum; ræða formanns VG fyrst klukkan 10:15, þá ræða formanns Sjálfstæðisflokks klukkan 13:30 og loks ræða formanns Viðreisnar kl 16:00. 

Stefnumál allra þessara þriggja flokka verða svo kynnt síðdegis í dag og verða þeim gerð skil. 

Landsþing VG og Viðreisnar verða haldin rafrænt en ræðum formanna er streymt frá Silfurbergi í Hörpu í tilfelli VG og frá Grand Hotel Reykjavík í tilfelli Viðreisnar. Hæst ber svo á landsþingi VG að kosið verður í stjórn flokksins. Sjálfkjörið er í embætti formanns og varaformanns en búist er við spennandi kosningu í embætti ritara flokksins þar sem tvær eru í framboði. 

Sjálfstæðismenn hittast í persónu

Illa hefur gengið að halda landsfund Sjálfstæðisflokksins undanfarna mánuði vegna sóttvarnatakmarkana og hefur fundinum því verið frestað oftar en einu sinni. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins er gjarnan kosið um embætti í stjórn flokksins, sem verður þó ekki í dag þar sem aðeins er um stefnumótunarfund flokksráðs að ræða, en ekki eiginlegan landsfund. 

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er vafalaust eins stærsta stjórmálasamkunda á Íslandi.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er vafalaust eins stærsta stjórmálasamkunda á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sjálfstæðismenn verða því að bíða fram yfir næstu kosningar eftir því að geta komið saman og kosið nýja stjórn flokksins. Í henni sitja nú Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sem formaður, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem varaformaður og Jón Gunnarsson þingmaður sem ritari.

Ólíkt Vinstri grænum og Viðreisnarfólki munu sjálfstæðismenn ekki funda rafrænt heldur verða haldnir fundir víðsvegar um landið; á Hótel Nordica við Suðurlandsbraut, Ísafirði, Blönduósi, Akureyri, Egilsstöðum, Höfn í Hornafirði og í Vestmannaeyjum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert