Vill að endurtalið verði á landinu öllu

Karl Gauti Hjaltason.
Karl Gauti Hjaltason. mbl.is/Kristinn Magnússon

Karl Gauti Hjaltason, fráfarandi þingmaður Miðflokksins, segist vilja að atkvæði verði endurtalin í öllum kjördæmum landsins. Karl var inni sem jöfnunarsætisþingmaður í Suðvesturkjördæmi í morgun en er nú úti eftir endurtalningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi. 

„Ég var úti í nótt, rækilega, en vaknaði svo og þá var ég kominn inn eftir síðustu tölur. Svo fór fram endurtalning og ég var dottinn aftur út. Það var enn þá hörmulegri líðan,“ segir Karl, spurður út í hans upplifun á síðasta sólarhringnum. 

Enn er óvíst hvort endurtalning fari fram í Suðurkjördæmi á morgun, en Vinstri græn hafa lagt fram beiðni um slíkt. Fari svo að atkvæði í kjördæminu verði endurtalin gæti röðun jöfnunarþingmanna breyst að nýju.  

„Það verður bara að hafa sinn gang, ég held ég sé búinn að ganga í gegnum allt sem hægt er að ganga í gegnum í þessu,“ segir Karl Gauti, sem þó er ekki sáttur með framkvæmd talninga í Norðvesturkjördæmi hið minnsta:

„Ég var að finna að þessari framkvæmd, að gefa út lokatölur en vera samt ákveðin í að endurtelja. Mér finnst það stórfurðulegt. Þú gefur ekki út lokatölur nema þú sért að gefa út lokatölur. Ef þú ætlar að endurtelja einhverra hluta vegna þá segir þú það.“

„Svo breytast tölurnar alveg svakalega, allir flokkar og auðir seðlar og ógildi meira að segja. Auðum seðlum fækkar að mér skilst, ég hélt það væri ekki erfitt að telja auða seðla. Það eykur ekki traust hjá manni að þetta sé svona, það er í stuttu máli tilfinningin,“ bætir Karl við. 

Ekki liggur fyrir hvort Miðflokkurinn muni formlega fara fram á endurtalningu. 

„Ég fór fram á það á Facebook að það yrði talið á öllu landinu aftur. Ég sá mjög einkennilegt misræmi í tölunum í Suðvesturkjördæmi í gær, það virðist sem bunkar hafi ekki verið með í talningu og það vekur upp þá spurningu hversu traustvekjandi þetta er. Það er ekki fyndið að fylgjast með þessu,“ segir Karl, en á Facebook greinir hann nánar frá umræddu misræmi; „...þegar fylgi M mældist 3,7%, en í næstu talningu 1,5% og greinilegt að bunkar höfðu týnst, gleymst í salnum eða í færslubókhaldinu...“

Karl segist þó vera rólegur yfir stöðunni sem stendur. 

„Ég er pollrólegur núna, ég er búinn að upplifa það mikinn rússíbana. En auðvitað verður lýðræðið að virka og við verðum að geta treyst framkvæmd kosninga. Þannig að ég er bara fylgjandi því að þetta verði talið upp á nýtt,“ segir Karl. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert