Virðist sem Framsókn hafi étið Miðflokkinn

Miðflokkurinn tapaði fjórum þingmannasætum frá sér í þessum kosningum en …
Miðflokkurinn tapaði fjórum þingmannasætum frá sér í þessum kosningum en Framsókn bætti við sig fimm. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er freistandi að segja að Framsóknarflokkurinn hafi étið Miðflokkinn sem klofningsflokk,“ segir Viktor Orri Valgarðsson, doktor í stjórnmálafræði.

Hann ber þó fyrir sig þann fyrirvara að ekki liggi fyrir upplýsingar um undirliggjandi hreyfingar kjósenda.

Vinstri græn misstu þrjá þingmenn en Flokkur fólksins bætti við sig þremur þingmönnum á móti. Viktor telur að hópur eldra fólks og öryrkja sem áður kusu Vinstri græn, kjósi nú Flokk fólksins. 

Sósíalistaflokkurinn náði ekki manni á þing, þrátt fyrir að kannanir hafi spáð þeim hagfelldari kosningu. Viktor telur að tilkoma Sósíalistaflokksins gæti skýrt hvers vegna Píratar og Samfylkingin náðu ekki betri árangri en raun ber vitni. Þau fjögur prósent sem sósíalistar fengu hefðu líklega runnið til hinna flokkanna.

Viktor Orri Valgarðsson, doktor í stjórnmálafræði
Viktor Orri Valgarðsson, doktor í stjórnmálafræði Ljósmynd/Píratar

Vel heppnuð kosningabarátta Framsóknarflokksins

Stærstu tíðindi kosninganna eru að hans mati sigur Framsóknarflokksins, sem bætti við sig fimm þingmönnum frá síðasta kjörtímabili. 

Hann telur að þótt kosningabarátta Framsóknar hafi virst ögn metnaðarlaus þá hafi hún ef til vill hitt naglann á höfuðið fyrir þessar kosningar.

Þá hafa vinsældir Ásmundar Einars Daðasonar og Lilju Alfreðsdóttur, í sínum ráðuneytum, haft mikið að segja en Framsókn bætti töluvert við sig meðal háskólamenntaðra kjósenda.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur reglulega lýst yfir ánægju …
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur reglulega lýst yfir ánægju sinni með slagorð flokksins: „Er ekki bara best að kjósa Framsókn?“ Kristinn Magnússon

Ánægjufylgið runnið til Framsóknar

„Fylgi flokkanna hefur verið stöðugt í könnunum og lítil hreyfing á helstu flokkunum. Svo varð útlit fyrir vinstri sveiflu og kröfu um breytingar, en hún virðist hafa gengið til baka á allra síðustu dögum.“

Viktor bendir á að stór hluti kjósenda geri ekki upp hug sinn fyrr en viku fyrir, eða jafnvel á kjördegi. Þessi hópur virðist hafa farið frekar til Framsóknar en til stjórnarandstöðunnar eða Sósíalistaflokksins. 

Ríkisstjórnin græddi á því hvernig þau meðhöndluðu faraldurinn, að mati Viktors, og ánægjufylgið virðist hafa runnið að mestu til Framsóknar. Fólk sem er sátt við stjórnina eins og hún er en vildi síður kjósa Sjálfstæðislokkinn eða Vinstri græn, kaus þá Framsókn.

Ríkisstjórnin græddi á því hvernig þau meðhöndluðu faraldurinn, að mati …
Ríkisstjórnin græddi á því hvernig þau meðhöndluðu faraldurinn, að mati Viktors.

Ekki sjálfgefið að ríkisstjórnin haldi

Viktor segir að það verði áhugavert að fylgjast með því hvort Framsóknarflokkurinn halli sér frekar til hægri eða vinstri í framhaldinu. Hann setur stórt spurningamerki við það hvort flokkurinn sætti sig við það að Katrín Jakobsdóttir, haldi áfram sem forsætisráðherra. 

„Ef Framsókn er að hugsa um ímynd sína, gæti verið að þau vilji fara í vinstri stjórn, en það gæti orðið þeim dýrkeypt,“ segir Viktor og nefnir sem dæmi að píratar myndu krefjast nýrrar stjórnarskrár, og að Viðreisn myndi krefjast endurskoðunar á kvótakerfinu. 

„Það er ekki sjálfgefið að þau nái saman með sömu ríkisstjórn þótt þau ætli sér að funda.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert