„Í raun einungis ein leið til að mynda meirihluta“

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík.
Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins, segir í samtali við mbl.is að viðræður um myndun meirihluta í Reykjavík séu enn á byrjunarreit, viku eftir að úrslit sveitarstjórnarkosninganna urðu ljós.

Hann segir að Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, hafi sett mikinn kraft í það að reyna fá Viðreisn eða VG í samstarf við Framsókn og Flokk fólksins. 

Einar segir nú ljóst að það verði ekki að veruleika í ljósi yfirlýsingar Þór­dísar Lóu Þór­halls­dótt­ur, odd­vita Viðreisn­ar, um að flokkurinn muni einungis vinna með Pír­öt­um og Sam­fylk­ing­unni. Þá sagði hún að hún vilji láta reyna á banda­lagið með því að hefja form­leg­ar meiri­hlutaviðræður með Fram­sókn­ar­flokkn­um.

„Þá þarf ég að íhuga aðeins stöðuna sem er komin upp. Ég held að ég þurfi að tala við mitt bakland því að án Viðreisnar og VG er ekki hægt að mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokknum.“

Ekki átt í neinum formlegum viðræðum

Einar segir að oddvitar flokkanna hafi átt mörg ágæt samtöl í vikunni.

Inntur að því hvernig samtöl hans við Dag B. Eggerts­son, odd­vita Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, og Dóru Björt Guðjóns­dótt­ur, odd­vita Pírata, hafi gengið segir Einar að Framsókn hafi ekki átt í neinum formlegum viðræðum við þá flokka. 

Einar segir að staðan sé í raun enn sú sama og fyrir viku síðan þar sem að engar formlegar viðræður séu hafnar.

„Hins vegar sýnst mér á öllu orðið nokkuð afdráttarlaust að Viðreisn ætlar ekki í samstarf við Sjálfstæðisflokk með þessari yfirlýsingu hennar á Facebook.“

Eru einhverjir fundir á dagskrá á morgun með öðrum oddvitum?

„Nei, það er ekkert komið á dagskrá en ég held að miðað við þessi nýjustu tíðindi þá held ég að ég fari frekar og fundi með mínu fólki í Framsókn um þá stöðu sem er komin upp, að það sé í raun einungis ein leið til að mynda meirihluta,“ segir Einar og bætir við að því sé enn talsvert langt í land er kemur að myndun meirihluta í borginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert