Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Ingibjörg Rósa Björnsdóttir
Ingibjörg Rósa Björnsdóttir
blaðamaður

Dregin í dilk með pabba

Þegar ég var lítil ræddi pabbi minn stundum um stjórnmál við aðra „kalla“ við eldhúsborðið. Sérstaklega ef langt var liðið á kvöld og kaffið þeirra lyktaði skringilega. Ef þeim hitnaði mikið í hamsi hækkuðu þeir róminn og börðu krepptum hnefum í borðið. Ég spurði mömmu af hverju þeir væru að rífast en hún sagði að þeir væru bara að tala um pólitík. Mér fannst pólitíkin ekkert sérlega freistandi viðfangsefni eftir þessi fyrstu kynni mín af henni og leyfði pabba og hinu fullorðna fólkinu að eiga hana í friði.

En í fámennu sveitasamfélagi kemst maður tæplega hjá því að vera virkur í öllu félagsstarfi, það kannast flestir við sem hafa prófað að búa í dreifbýli. Félagsskapur af ýmsum toga er nauðsynlegur til að samfélag þrífist og margbreytileiki og lífsgleði fái að njóta sín. Og pólitík er jú ekkert annað en samfélag manna í stöðugri framþróun; allt er pólitík. Svo að ef að foreldrarnir voru virkir í stjórnmálalífinu í sveitinni var óhjákvæmilegt að pólitíkin smitaðist yfir á börnin og fyrir hverjar kosningar urðu oft engu síðri hitaumræður í skólabílnum en við eldhúsborðið heima hjá mér. Sveitabæirnir skiptust nokkuð skýrt í blátt, grænt og rautt og það læra börnin sem fyrir þeim er haft svo skólafélagar mínir fylgdu litakvaðningunni flestir nokkuð eindregið.

Þar sem pabbi minn hafði aldrei hljótt um það hvar í flokki hann stæði, þá var ályktað að kona hans og börn fylgdu honum að máli. Þannig að ellefu, tólf ára gömul var ég útmáluð í flokkslit pabba míns, í sakleysi mínu á leið heim úr skólanum, án þess að hafa nokkuð fylgst með eða gert upp hug minn um pólitík, enda önnum kafin við að vera barn. Ég reyndi að malda í móinn og neita því að ég væri búin að ákveða hvaða flokk ég ætlaði að kjósa þegar ég fengi kosningaaldur. En æskufélagarnir hnussuðu bara „auðvitað kýstu sama flokk og pabbi þinn“ enda sennilega þótt fásinna á þeim aldri að gera öðruvísi en foreldrarnir. Mig langaði að útskýra fyrir þeim að þegar sá tími kæmi myndi ég kynna mér málefni frambjóðenda og stefnumál flokka og taka upplýsta og yfirvegaða ákvörðun hverju sinni, fyrir hverjar kosningar, og meta það hvað kæmi samfélaginu í heild best miðað við mínar eigin hugmyndir um gott samfélag. Þetta kunni ég hins vegar ekki að setja í orð á þessum aldri en man hvað mig sveið að vera ekki tekin alvarlega, að þau skyldu bara gera ráð fyrir því að ég kysi eins og pabbi minn!

Á endanum varðist ég þessum ásökunum á þann eina hátt sem ég kunni, með því að skjóta hökunni þrjóskulega fram og tilkynna að ég ætlaði sko barasta ALDREI að kjósa því að pólitík væri bara ASNALEG! En inni í mér sauð reiðin hljóðlega, ég var svo reið og sár út í þessa æskufélaga mína yfir því að þau skyldu draga þá ályktun að ég myndi ekki, og jafnvel gæti ekki, hugsað sjálfstætt. Að einhver skyldi líta framhjá því að ég hefði mínar eigin skoðanir og langanir. Að einhver héldi að ég væri ekki nógu klár til þess. Og það sem sveið mest, að með þessu kjánalega tilsvari mínu hefði ég sjálf gefið þeim ástæðu til að halda að ég væri svo vitlaus að ég skildi ekki mikilvægi kosninga eða stjórnmála.

Þetta sveið lengi, lengi og mér verður enn oft hugsað til þessarar óþægilegu upplifunar, þessa dags þegar vinir mínir sögðu að ég gæti ekki hugsað sjálfstætt. Og undanfarið hef ég einnig hugsað til þess, hvað ef ég hefði fæðst 150 árum fyrr? Hvað ef allt samfélagið teldi að ég gæti ekki hugsað sjálfstætt, hversu smánarlega myndi mér ekki líða þá? Hversu sárt myndi það ekki svíða ef heilt samfélag liti framhjá því að ég hefði eigin skoðanir og langanir? Tilhugsunin er ægileg en þó ekki svo fjarlæg að mér líði ekki dálítið eins og ég hafi rétt svo sloppið fyrir horn. Hjartað hamast í brjóstinu, ég stend á öndinni, kyngi og rétt næ að koma upp orðinu „takk“. Þakka ykkur baráttukonur, og –karlar, fortíðarinnar fyrir elju ykkar og staðfestu. Takk fyrir að skoðanir mínar fá að heyrast, takk fyrir að einhver hlustar á mig. Takk.