Börn meðal látinna

ERLENT  | 23. maí | 6:28 
Lögreglan í Manchester hefur greint frá því að árásarmaðurinn hafi látist þegar hann virkjaði sprengjuna sem hann var með á sér á tónleikunum í Manchester í gærkvöldi. Lögregla hefur hækkað tölu látinna úr 19 í 22. Meðal þeirra eru börn

Lögreglan í Manchester hefur greint frá því að árásarmaðurinn hafi látist þegar hann virkjaði sprengjuna sem hann var með á sér á tónleikunum í Manchester í gærkvöldi. Lögregla hefur hækkað tölu látinna úr 19 í 22. Meðal þeirra eru börn. 59 særðust í árásinni sem er sögð vera hryðjuverk.

Örvæntingarfullir ættingjar og vinir leita nú þeirra sem ekki hafa látið vita af sér eftir tónleikana.  

 

Yfirlögregluþjónn Greater Manchester, Ian Hopkins, ræddi við fjölmiðla nú í morgunsárið. Hann segir að árásin sé rannsökuð sem hryðjuverk og að lögregla telji að einn maður hafi verið að verki. Sá lést á vettvangi þegar hann virkjaði sprengibúnaðinn sem hann var með á sér. 

Hopskin segir að atvikið sé það skelfilegasta sem lögreglan á svæðinu hafi upplifað. Alls voru 400 vopnaðir lögreglumenn sendir á vettvang strax í gærkvöldi og eru þeir enn að störfum.

Hopkins segist ekki geta upplýst um aldur þeirra sem létust í árásinni að öðru leyti en að meðal þeirra eru börn. Eins vill hann ekki staðfesta orðróm um að árásarmaðurinn sé breskur.

Að sögn Hopkins er mikilvægt að allir haldi vöku sinni en um leið að fólk haldi áfram að sinna daglegum störfum. Ef fólk verði vart við eitthvað óvenjulegt þá eigi það að hafa beint samband við sérstaka símalínu tengda mögulegum hryðjuverkaárásum. Hryðjuverkaógnin hverfi ekki.

„þetta er það skelfilegasta sem við höfum staðið frammi fyrir í Greater Manchester og eitthvað sem við vonuðum að við þyrftum aldrei að upplifa.

Fjölskyldur og margt ungt fólk var að njóta tónleikanna á Manchester Arena er látið. Hugur okkar eru með fórnarlömbunum 22 sem við vitum að eru látin. Þeim 59 sem særðust og þeim sem hafa misst ástvini sína. Við munum halda áfram að gera allt sem í okkar valdi stendur til að styðja þá,“ segir Hopkins á fundi með blaðamönnum.

Hann segir að þeir særðu séu á átta sjúkrahúsum víðsvegar um Manchester og nágrenni.
Rannsókninni miði vel áfram og lögreglan hafi fengið fjölmargar vísbendingar tengdum rannsókninni.

Að sögn Hopkins munu íbúar í Manchester ekki komast hjá því að verða varir við aukinn viðbúnað í borginni og nágrenni.

 

 

 

 

 

 
 

Þættir