Gríðarleg eyðilegging blasir við

ERLENT  | 19. september | 7:16 
Gríðarleg eyðilegging blasir við á Dóminíka eftir að fellibylurinn Maria nam þar land, að sögn forsætisráðherrans, Roosevelt Skerrit. „Við höfum misst allt sem hægt er að kaupa fyrir peninga.“

Gríðarleg eyðilegging blasir við á Dóminíka eftir að fellibylurinn Maria nam þar land, að sögn forsætisráðherrans, Roosevelt Skerrit. „Við höfum misst allt sem hægt er að kaupa fyrir peninga,“ skrifar hann á Facebook.

Fellibylurinn María náði fimmta stigi af fimm á kvarða sem kenndur er við vísindamennina Saffir og Simpson um svipað leyti og hann fór að herja á eyjar í Karíbahafi í nótt.

 

Skerrit hafði áður birt á Facebook beina útsendingu þar sem þak húss hans sést rifna af. Hann segist helst óttast fréttir af slysum á fólki og mannskaða þegar tekur að birta. Aurskriður séu óumflýjanlegar í svo mikilli úrkomu sem nú er. 

Maria fer svipaða leið og Irma gerði fyrr í mánuðinum og olli gríðarlegri eyðileggingu. Vindstyrkur Mariu mælist nú 72 metrar á sekúndu eða 260 km á klukkustund.

Hæsta viðbúnaðarstig er á eyjunni Martinique og á Guadeloupe hefur íbúum verið fyrirskipað að hafa sig á brott.

Vantar þyrlur til þess að meta tjónið

Maria nam land í Dóminíka klukkan 01:15 í nótt að íslenskum tíma. Fyrstu fréttir benda til þess að eyðileggingin sé gríðarleg. Þök hafa farið af nánast öllum húsum fólks sem forsætisráðherrann hefur rætt við. Meðal annars var þakið á íbúð forsætisráðherraembættisins eitt það fyrsta sem fauk. 

Hann biðlar til ríkja heims um að veita aðstoð af öllu tagi, einkum og sér í lagi hvort hægt sé að senda þyrlur á vettvang svo hægt sé að meta tjónið. 

Áður en óveðrið skall á flykktust íbúar eyjunnar í matvöruverslanir til þess að birgja sig upp. Öll neyðarskýli á eyjunni taka á móti fólki þar sem flóðahætta er mikil á þeim svæðum sem liggja lægst. 

Flugvellinum og höfnum var lokað áður en óveðrið skall á og vatnsveitan lokaði fyrir vatnskerfið til þess að koma í veg fyrir skemmdir vegna fjúkandi hluta.

Frétt BBC

Þættir