Simbabvebúar fagna afsögn Mugabes

ERLENT  | 22. nóvember | 7:26 
Íbúar Simbabve fögnuð langt fram eftir nóttu afsögn Robert Mugabes forseta landsins, en Mugebe greindi frá því í gær að hann myndi láta undan þrýstingi og segja af sér. Þingmenn fögnuðu ákvörðun Mugabes og fólk dansaði og söng á götum úti, sumir veifuðu líka fánum og aðrir þeyttu bílflautur.

Íbúar Simbabve fögnuð langt fram eftir nóttu afsögn Robert Mugabes forseta landsins, en Mugebe greindi frá því í gær að hann myndi láta undan þrýstingi og segja af sér.

Mugabe, sem hefur verið við völd í 37 ár sagði eitt sinn að „guð einn“ gæti vikið sér af forsetastóli.

BBC segir búist við að Emmerson Mnangagwa, sem var varaforseti landsins þar til Mugabe rak hann fyrir skemmstu, muni snúa aftur frá Suður-Afríku til Simbabve og að hann verði skipaður forseti landsins áður en dagurinn er allur.

Afsögn Mugabes í gær vakti nokkra undrun, en forsetinn sagði af sér bréfleiðis og sá þingforsetinn um að lesa upp tilkynninguna. Þar sagði Mugabe að hann segði af sér til að tryggja friðsælan valdaflutning og að ákvörðunina tæki hann sjálfviljugur. Mugabe hafði fram að því ekki látið undan þrýsting frá almenningi, hernum eða eigin þingflokki að stíga til hliðar.

Þingmenn fögnuðu ákvörðun Mugabes og fólk dansaði og söng á götum úti, sumir veifuðu líka fánum og aðrir þeyttu bílflautur. „Ég er svo glaður. Dásamlegt. Ég er svo spenntur, þetta er ein stærsta stund í sögu þjóðarinnar,“ sagði Julian Mtukudzi við AFP-fréttastofuna. „Við höfum verið andvaka, en beðið og vonað og erum svo glöð. Þetta er búið og gert.“

Stjórnmálamaðurinn og aktívistinn Vimbaishe Musvaburi brast í grát af gleði er hann ræddi við BBC. „Við vorum orðin svo þreytt á þessum manni og við erum svo ánægð með að hann sé farinn. Við viljum hann ekki lengur, og já þetta er sigur í dag,“ sagði hann. 

Stjórnarflokkurinn Zanu-PF segir Mnangagwa munu taka við forsetaembættinu af Mugabe, en það olli stjórnarkreppu er Mugabe rak Mnangagwa fyrr í þessum mánuði. Töldu margir forsetann með því vera að reyna að gera konu sinni Grace Mugabe, fært að taka við embættinu af sér. Í kjölfarið tók herinn völdin í landinu og setti Mugabe í stofufangelsi.

Þættir