mbl | sjónvarp

Hugrakkt að taka þetta lag

FÓLKIÐ  | 28. janúar | 14:25 
„Það að þú getir farið inn í tilfinninguna og sungið hana svona út, það er heiður að upplifa það hérna,“ sagði Unnsteinn um flutning Arnars Dórs á laginu Creep með Radiohead. Arnar var einn fjögurra söngvara sem voru kosnir áfram í úrslitaþátt The Voice.

Arnar Dór Hannesson er gospelsöngvarinn í hópi þeirra sem eftir standa í sjónvarpsþáttunum The Voice Ísland. Þrátt fyrir það byrjaði hann þátttökuna í þáttunum á því að syngja lag með þungarokksveitinni Metallica. Í undanúrslitunum valdi hann að syngja lagið Creep með bresku rokksveitinni Radiohead. Útgáfan sem Arnar valdi að syngja var mun rólegri en upprunalega útgáfan. Lagið tileinkaði hann systur sinni, sem veiktist alvarlega árið 2012 og hefur að hans sögn vart beðið þess bætur. Það var ljóst að flutningurinn skipti Arnar miklu máli því hann var mjög tilfinningaþrunginn.

„Ég var svolítið meyr, mér fannst mjög hugrakkt af Arnari að taka þetta lag,“ sagði Helgi Björns, þjálfari Arnars í þáttunum. Hinir þjálfararnir höfðu líka sína skoðun en ekkert þeirra hafði áhrif á úrslitin sem símakosning réði.

„Þú fylltir út í þetta risastóra fluskýli sem við erum í, bæði með viðveru þinni og röddinni þinni. Það er meira en að segja það,“ sagði Salka Sól.

„Það að þú getir farið inn í tilfinninguna og sungið hana svona út, það er heiður að upplifa það hérna,“ sagði Unnsteinn Manúel.

Þjóðin var ekki síður hrifin af flutningnum, en Arnar var kosinn áfram og stígur á svið í úrslitaþættinum sem fer fram næstkomandi föstudagskvöld.

Loading