Rússneska mafían ógnar Netinu

Glæpahringir í Rússlandi og lýðveldum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum hafa í auknum mæli brotist inn á verslunarvefsetur og bankaþjónustur á Netinu í Bandaríkjunum og víðar. Glæpahóparnir hafa valdið miklum usla, meðal annars ýtt vírusum úr vör, gert árásir á vefsetur til þess að koma þeim á hliðina eða brotist inn í tölvur. Eru hóparnir sagðir mikil ógnum við verslun og viðskipti á Netinu, að sögn bandarísku alríkislögreglunnar FBI.

Eru tölvuþrjótar meðal annars sagðir nýta sér glufur í Windows NT-stýrikerfinu, því þrátt fyrir að Microsoft hafi gefið út leiðréttingar til þess að loka glufunum eru mörg fyrirtæki sem ekki hafa notað þær og því eru þau sögð varnarlaus gagnvart hvers kyns árásum. Sem dæmi um umfang glæpahópa í Rússlandi og annars staðar í Austur-Evrópu er nefnt á netmiðlinum ZDNet að 40 fyrirtæki í 20 löndum hafa orðið fyrir barðinu á tölvuglæpum, en þeir hafa einnig komist yfir meira en milljón kreditkortanúmer. Tölvuþrjótarnir eru oftast undir verndarvæng rússnesku mafíunnar, sem starfar í 50 löndum og hefur í vaxandi mæli tekið þátt í tölvuglæpum. Meðal annars starfar rússneska mafían, sem er oft undir stjórn fyrrverandi KGB-leyniþjónustumanna, í öllum stærstu borgum Bandaríkjanna. Greint er frá því á ZDNet að rússneskir og austur-evrópskir tölvuþrjótar séu mikil ógnun við verslun á Netinu og tölvuiðnaðinn og er jafnvel búist við spreningu í tölvuglæpum í nánustu framtíð.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert