Getnaðarvarnalyf þróað fyrir kengúrur

Vísindamenn í Canberra í Ástralíu vinna nú að þróun getnaðarvarnarpillu sem ætluð er kengúrum. Don Fletcher, umhverfisráðgjafi ástralskra stjórnvalda, segir mikilvægt að finna leið til að halda kengúrustofninum í skefjum án þess að þurfa að fanga dýrin til að gera þau ófrjó. Stofninum hefur hingað til verið haldið í skefjum með því að vana karldýr og sprauta kvendýr með hormónasprautum en hvoru tveggja krefst þess að dýrin séu fönguð.

"Þegar um er að ræða villt dýr er raunhæfast að getnaðarvörnin sé tekin inn með fæðu,” segir Fletcher sem vinnur að verkefninu ásamt vísindamönnum við Newcastle University. “Eitt af þeim verkefnum sem við stöndum frammi fyrir er að finna kengúru-ís, eitthvað sem þeim finnst ómótstæðilegt.” Þá segist hann hafa trú á því að rétta samsetningin finnist innan tveggja til fimm ára.

Mikið er af kengúrum í Canberra, sérstaklega á þurrkatímanum þegar þær sækjast eftir að komast í gras í vökvuðum görðum og á golfvöllum og skapa þær m.a. mikla hættu í umferðinni.

Kengúrunum í Canberra var til skamms tíma haldið í skefjum með skotvopnum en vegna mótmæla dýraverndunarsinna og þeirrar hættu sem af skotvopnunum stafar fyrir íbúa svæðisins leita yfirvöld nú annarra leiða til að leysa vandamálið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert