Sony kynnir nýja MP3-spilara með sérstaklega góðum rafhlöðum

Ung stúlka með NW-S700F spilarann frá Sony.
Ung stúlka með NW-S700F spilarann frá Sony. AP

Japanski tæknirisinn Sony kynnti í dag fimm nýja MP3-spilara, en fyrirtækið hefur átt undir högg að sækja á þeim markaði sökum gríðarlegra vinsælda iPod splaranna frá Apple. Meðal nýjunga í spilurunum frá Sony er sérstök tækni sem minnkar utanaðkomandi hljóð til mikilla muna. Þá eru sérstaklega góðar rafhlöður í nýju spilurunum, en mögulegt er að hlusta á um þrjár klukkustundir af tónlist eftir aðeins þriggja mínútna hleðslu, og allt að 50 klukkustundir eftir tveggja klukkustunda langa hleðslu.

„Við höfum fulla trú á þessum miklu hljóðgæðum sem er okkar tromp. Við viljum auka markaðshlutdeild okkar í MP3-spilurum sem er nú um 20% í Japan,“ sagði Kiyoshi Shikano, einn af yfirmönnum Sony í Japan. Nýju spilararnir verða í fyrstu fáanlegir í fjórum litum og munu kosta frá um 150 dollurum, rúmlega 10.000 krónum.

Sony hefur gert ýmsar tilraunir til þess að skáka iPod spilurnum og sem dæmi má nefna að í fyrra setti fyrir tækið á markað spilara sem leit út eins og sælgæti úr hlaupi.

Árið 1979 setti Sony hinn gríðarlega vinsæla „Walkman“ á markað, en um var að ræða byltingarkennt lítið kasettutæki sem hægt var að taka með sér hvert sem er. Fyrirtækið hefur hins vegar ekki náð sér á strik í framleiðslu MP3-spilara þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Í september á síðasta ári var 10.000 manns sagt upp hjá fyrirtækinu í kjölfar þess að tilkynnt var um mikið tap á rekstri fyrirtækisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert