Börn mæðra yngri en 25 ára líklegri til að ná 100 ára aldri

Þeir Bretar sem ná 100 ára aldri fá í tilefni dagsins símskeyti frá drottningunni, og þeir Bretar sem komu í heiminn áður en móðir þeirra var orðin 25 ára eiga allt að tvöfalt meiri möguleika en aðrir á að fá slíkt símskeyti, samkvæmt niðurstöðum nýlegrar rannsóknar.

Frá þessu greindi The Daily Telegraph fyrir skömmu, en niðurstöðurnar eiga að sjálfsögðu ekki einungis við Breta. Fyrri rannsóknir hafa bent til að frumburðir væru líklegri en aðrir til að verða hundrað ára, en nú virðist sem hin raunverulega ástæða sé sú, að líklegt er að konur séu ungar þegar þær eignar fyrsta barn.

Það voru vísindamenn við Háskólann í Chicago sem gerðu rannsóknina, en hún var byggð á gögnum um 198 Bandaríkjamenn, sem fæddust á árunum 1890-1893.

Möguleikar frumburða á að verða 100 ára eru 1,7 sinnum meiri en möguleikar systkina þeirra. En þetta kemur einungis fram hjá þeim sem fæddust áður en móðir þeirra varð 25 ára, segir Natalia Gavrilova, einn höfunda rannsóknarinnar. Orsökin fyrir þessu er óþekkt.

Gavrilova segir þetta mikilvægar niðurstöður í ljósi þess hversu margar konur séu nú farnar að fresta barneignum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert