Atferli jeppaökumanna rannsakað

Nýsjálenskir vísindamenn sem rannsakað hafa atferli þarlendra jeppaökumanna undir stýri segjast hafa komist að því, að minni líkur séu á að ökumenn stórra jeppa fari að eins og ábyrgum ökumönnum sæmir, miðað við aðfarir annarra ökumanna.

Nýsjálensku atferlisfræðingarnir könnuðu atferli tæplega tólf hundruð landa sinna undir stýri á stórum jeppum og fylgdust sérstaklega með því hvort þeir ækju með báðar hendur á stýri - í tíumínútur í tvö-stellingunni svonefndu - sem er einkennisstaða hins ábyrga ökumanns.

Í ljós kom, að 55 prósent meiri líkur voru á því að jeppaökumenn væru aðeins með aðra hönd á stýri, miðað við ökumenn fólksbíla og minni jeppa.

Í breska vísindaritinu New Scientist, sem greindi frá rannsókninni á laugardaginn, er haft eftir einum höfunda rannsóknarinnar, Jared Thomas, sem starfar við Opus-atferlisrannsóknastofnunina í Wellington, að jeppaökumenn teldu sér líklega betur borgið þar sem þeir væru í stórum bílum og upplifðu síður en aðrir ökumenn að hætta steðjaði að þeim.

Rannsóknin í heild er birt í sérfræðiritinu Transportation Journal.

Bresk rannsókn sem gerð var í fyrra leiddi í ljós að hátt í einn af hverjum tólf ökumönnum stórra jeppa í London töluðu í símann undir stýri, eða fjórfalt fleiri en ökumenn annarra bíla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert