Heilaskemmd upprætir reykingafíkn

Skemmdir á svæði á stærð við tíukrónupening djúpt í heilanum virðast uppræta reykingafíkn, að því er vísindamenn hafa óvænt komist að. Kann þessi uppgötvun að varpa nýju og mikilvægu ljósi á fíkn. „Þetta er sláandi,“ sagði einn vísindamannanna, Antoine Bechara.

Rannsóknin sem leiddi þetta í ljós var gerð eftir að maður sem fékk heilablóðfall sagðist eftir það hafa steingleymt því að hann var vanur að reykja tvo pakka af sígarettum á dag.

„Hann hætti eins og slökkt væri á rofa,“ sagði Bechara, sem starfar við Háskólann í Suður-Kaliforníu. Hann tók sneiðmyndir af heilanum í 69 reykingamönnum og fyrrverandi reykingamönnum til að finna nákvæmlega hvaða svæði í heilanum væri um að ræða.

Greint er frá uppgötvuninni í Science í dag.

Þótt ekki komi til greina fyrir reykingamenn að láta skemma í sér heilann til að losna við fíknina telja vísindamenn að þessi uppgötvun geti rutt brautina fyrir ný lyf til að hjálpa reykingamönnum til að hætta með því að beina spjótunum að þessu svæði í heilanum, sem kallast eyja. Þá er talið líklegt að eyjan gegni lykilhlutverki í öðrum fíknum líka.

Svo virðist sem eyjan sé staðurinn þar sem heilinn breytir líkamlegum viðbrögðum í tilfinningar, eins og til dæmis þegar hraður hjartsláttur veldur kvíða. Þegar tiltekin efni valda þessum viðbrögðum kann eyjan að virka eins og stjórnstöð fíknar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert