Flöskuháls kemur í veg fyrir að heilinn vinni tvö verk í einu

Heili Alberts Einsteins.
Heili Alberts Einsteins. Reuters

Bandarískir vísindamenn telja sig hafa fundið ástæðuna fyrir því að fólki reynist erfitt að framkvæma tvo hluti í einu. Í rannsókninni sem birt er í tímaritinu Neuron segir að heilinn hægi á starfsemi sinni ef reynt er að framkvæma verk innan við 300 millisekúndum eftir að öðru verki lýkur. Þessar niðurstöður þykja styðja mál þeirra sem vilja alfarið banna notkun farsíma í bílum.

Rannsóknin fór meðal annars fram þannig að þátttakendur voru beðnir um að þrýsta á viðeigandi lykil sem tengdir voru hljóðim og gefa frá sér hljóð sem tengd höfðu verið við myndir.

Kom fram í rannsókninni að vissir hlutar heilans réðu illa við að framkvæma tvö verkefni í einu ef boðin voru send með innan við 300 millisekúndna millibili. Ef millibilið var ein sekúnda sýndi heilinn hins vegar engin merki um flöskuhálsinn.

Paul Dux, sem stýrði rannsókninni segir að vitað hafi verið að fólk ætti erfitt með að framkvæma tvo hluti í einu og að rannsóknin sýni að svo virðist sem heilinn „raði” hlutum ef áreitið gerist of hratt. Segja vísindamennirnir að rannsóknin sýni mikilvægi þess að takmarka áreiti við flóknar aðstæður, t.d. þegar flogið er flugvél eða bíl ekið.

Segir Dux þetta þýða að svokallaður handfrjáls búnaður geri hugsanlega ekki það gagn sem ætlast er til, þar sem áreitið á heilann sé of mikið þegar bæði er ekið og talað í síma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert