83% íslenskra heimila tengd netinu

Nánast allir Íslendingar, sem komnir eru til vits og ára, …
Nánast allir Íslendingar, sem komnir eru til vits og ára, nota netið. mbl.is/Júlíus

Að meðaltali voru tölvur á 84% íslenskra heimila og 83% heimila hér á landi voru tengd netinu árið 2006. Það ár höfðu 62% heimila í aðildarlöndum Evrópusambandsins tölvu og 51% þarlendra heimila voru tengd netinu. Þetta kemur fram í Hagtíðinum Hagstofunnar.

Árið 2006 notuðu 90% Íslendinga á aldrinum 16–74 ára tölvu og 88% þeirra notuðu netið. Á sama tíma notuðu 61% íbúa Evrópusambandsins tölvu og 54% þeirra notuðu netið.

Evrópsk fyrirtæki hafa nær öll innleitt tölvur og net í daglega starfsemi sína. Þannig lá hlutfall evrópskra fyrirtækja með tölvu á bilinu 89–100% árið 2006 og 75–99% evrópskra fyrirtækja voru tengd netinu.

Nær öll fyrirtæki hér á landi höfðu átt í samskiptum við opinbera aðila um netið árið 2006. Það ár höfðu að meðaltali 64% fyrirtækja í ESB-löndunum átt í rafrænum samskiptum við hið opinbera. Hlutfall einstaklinga á aldrinum 16–74 ára sem notuðu netið til samskipta við opinbera aðila var hæst hér á landi árið 2006 eða 61%. Á sama tíma var hlutfallið 24% að meðaltali í aðildarlöndum Evrópusambandsins. Íslendingar sýna því almennt mikinn áhuga að sækja sér ýmsa opinbera þjónustu um netið.

Árið 2005 störfuðu 422 fyrirtæki með ríflega 6100 starfsmenn í upplýsingatækniiðnaði hér á landi. Velta þessara fyrirtækja nam rétt tæpum 100 milljörðum króna þetta sama ár.

Verðmæti innfluttra upplýsingatæknivara nam 46 milljörðum króna árið 2005. Sama ár voru fluttar út upplýsingatæknivörur fyrir ríflega 840 milljónir íslenskra króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert