Ostur orðinn internetstjarna

Stór og myndarlegur enskur cheddarostur er orðinn stjarna á netinu, og hefur yfir ein milljón netnotenda horft á hann þroskast hægt og bítandi. Osturinn vakti fyrst almenna athygli í febrúar, og síðan hafa áhorfendur í 119 löndum skoðað hann.

Osturinn var fyrst settur fyrir framan vefmyndavél síðla í desember, en hann á heima hjá West Country Farmhouse ostagerðinni í Bretlandi. Í morgun fóru heimsóknir á vefsíðuna þar sem sjá má ostinn yfir eina milljón, að sögn talsmanns fyrirtækisins sem heldur síðunni úti, www.cheddarvision.tv, í dag.

„Hugmyndin var að sýna fólki hvernig alvöru matur er búinn til. Og það virðist ætla að skila árangri,“ segir ostagerðarmeistarinn Tom Calver. „Það tekur ostinn heilt ár að ná fullum þroska. Þetta er ekki skyndimatur. Þetta er hæglætismatur.“

Tvær myndir af krókódílum eru sitthvoru megin við ostinn, eins og sjá má, en það voru bandarísk skólabörn sem sendu þessa krókódíla til að gæta ostsins.

Ostsjónvarpið

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert