Yfirmaður NASA ekki viss um að bregðast þurfi við loftslagsbreytingum

Reuters

Þau orð Michaels Griffins, yfirmanns bandarísku geimvísindastofnunarinnar (NASA), í útvarpsviðtali í gær, að hann sé ekki viss um að bregðast þurfi við hlýnun í andrúmslofti jarðar hafa vakið hörð viðbrögð í dag, og m.a. hneykslað helsta loftslagsbreytingasérfræðing stofnunarinnar.

Griffin sagði í viðtali við bandaríska ríkisútvarpið, NPR, að hann efaðist ekki um að loftslagið færi hlýnandi. Aftur á móti kvaðst hann „ekki viss um að hægt sé að fullyrða að það sé vandamál sem við verðum að bregðast við.“

Bandarískir þingmenn hafa gagnrýnt Griffin fyrir að skera niður verkefni er miða að eftirliti með hlýnuninni.

Í viðtali við NPR sagðist James Hansen, yfirmaður loftslagsbreytingarannsókna hjá NASA, gáttaður á orðum Griffins. Aðspurður um hver hans fyrstu viðbrögð hafi verið svaraði hann: „Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið.“

Hansen sagði orð Griffins hreint ótrúleg, því að þau bæru vott um mikla vanþekkingu á ríkjandi ástandi. „Hann virtist ekki hafa hugmynd um að 170 ríki eru á einu máli um að loftslagsbreytingar séu alvarlegt vandamál sem geti haft ófyrirséðar afleiðingar og bitnað á fjölda manns ef ekkert verður að gert.“

Griffin sagði síðar í yfirlýsingu að það væri hlutverk NASA að safna, greina og birta upplýsingar. Það væri ekki markmið NASA að móta stefnu varðandi hugsanlegar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert