Þorsteini Inga afhent Alheimsorkuverðlaunin

Þorsteinn Ingi Sigfússon fær hamingjuóskir frá Victor I. Tatarintsev, sendiherra …
Þorsteinn Ingi Sigfússon fær hamingjuóskir frá Victor I. Tatarintsev, sendiherra Rússlands þegar tilkynnt var að hann hlyti verðlaunin. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

„Þetta er geysimikill heiður og hvatning, ekki síst fyrir þá sem stunda orkurannsóknir á Íslandi,“ segir Þorsteinn Ingi Sigfússon, prófessor við Háskóla Íslands, en í dag voru honum veitt Alheimsorkuverðlaunin (e. Global energy international prize) í Pétursborg í Rússlandi.

Verðlaunin hlaut Þorsteinn fyrir rannsóknir sínar í orkumálum, en þau eru ein æðsta viðurkenning rússneska lýðveldisins fyrir vísindarannsóknir og er ætlað að styðja alþjóðlega samvinnu við lausn brýnustu orkuvandamála samtímans.

Mikill metnaður er lagður í verðlaunin sem nefnd hafa verið rússnesku Nóbelsverðlaunin í orkuverkfræði og var gert ráð fyrir að Vladimir Pútín Rússlandsforseti afhenti þau. Þorsteinn var valinn úr 146 manna hópi, en aðeins Nóbelsverðlaunahafar og meðlimir í rússnesku vísindaakademíunni hafa rétt til að tilefna menn til verðlaunanna. Þrjátíu manna alþjóðleg dómnefnd sá svo um valið. Þorsteinn hlaut helming verðlaunanna í ár og hinum helmingnum deila Geoffrey Hewitt og Vladimir Nakorjakov með sér, en þeir hljóta viðurkenningu fyrir rannsóknir og þróun í varmaskiptafræði.

Í ræðu sinni við afhendinguna sagðist Þorsteinn standa á öxlum risa sem undanfarna öld hafa rutt brautina fyrir nýtingu sjálfbærrar orku.

„Af þessu tilefni vil ég leyfa mér að nefna nöfn Steingríms Jónssonar, Jakobs Gíslasonar, Gunnars Böðvarssonar, Jóhannesar Zoëga og Braga Árnasonar. Þessir einstaklingar hafa verið fremstir meðal fjölda frumherja í orkumálum á Íslandi.“

Þorsteinn kom einnig inn á framhald vetnisverkefnisins í ræðu sinni og sagði að framleiðsla og notkun vetnis sem orkubera á Íslandi gæti orðið fyrirmynd fyrir heiminn.

Sú stefna að hverfa frá notkun jarðefnaeldsneytis til nýrra orkubera krefst þess hins vegar að aukið verði við færni á svæði vetnistækni.

Í samtali við Morgunblaðið segir Þorsteinn verðlaunin vera mikla hvatningu til að halda áfram á sömu braut, bæði fyrir sig og aðra á Íslandi.

„Og ég vona að þetta verði til að styrkja útrás okkar á sviði orkutækni. Til dæmis eru hér í Rússlandi spennandi atriði sem hægt er að vinna að með Rússum í orkutækni, því þeir standa þar mjög framarlega og eru öflug tækniþjóð, sérstaklega á orkusviði.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert