Aukaefni í matvælum ýta undir ofvirkni samkvæmt rannsókn

AP

Breska matvælaeftirlitið (FSA) hefur varað foreldra við því að aukaefni í matvælum geti ýtt undir ofvirkni barna þeirra eftir að ný rannsókn sem gerð var á vegum þess við háskólann í Southampton leiddi í ljós fylgni á milli ofvirkniseinkenna og athyglisbrests og neyslu drykkja með aukaefnum í. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Í rannsókninni var fylgst með 300 börnum sem valin voru af handahófi eftir að þau neyttu drykkja með litarefnum og öðrum aukaefnum. Sérfræðingar segja þó ekki ljóst hvort rekja megi áhrifin til rotvarnarefnanna eða litarefnanna. Þá ítreka þeir að þættir á borð við erfðaþætti, fyrirburafæðingar, umhverfi og uppeldi hafi einnig mikil áhrif á þróun umræddra fráhvarfa.

“Við höfum endurmetið ráðleggingar okkar til neytenda. Sýni barn merki um ofvirkni eða athyglisbrest bendir rannsóknin til þess að það geti verið til bóta að draga úr neyslu litarefna,” segir Dr Andrew Wadge, talsmaður FSA. Þá segir hann stofnunina hafa hitt fulltrúa breska matvælaiðnaðarins vegna þeirra vísbendinga sem rannsóknin gefur.

Rannsóknin fór annars vegar fram meðal heilbrigðra þriggja ára barna og hins vegar heilbrigðra átta til níu ára barna og fékk hluti barnanna sérblandaðan drykk með aukaefnum. Annar hópur fékk drykki með aukaefnum sem fáanlegar eru í verslunum og þriðji hópurinn fékk drykki án allra aukaefna. Greinilegt var af niðurstöðunum að magn aukaefna hafði áhrif á hegðun barnanna en áhrifin voru þó mun greinilegri hjá yngri börnunum en þeim eldri.

Bresku neytendasamtökin hafa í kjölfar rannsóknarinnar farið fram á það við matvælaframleiðendur að dregið verði úr notkun þessara efna í matvælum. “Litarefni lífga vissulega upp á unnin matvæli og drykki en þau virðast einnig ýta undir hegðunarvandamál meðal sumra barna,” segir talsmaður samtakanna.

Julian Hunt, talsmaður matvælaframleiðenda, segir framleiðendur taka ábendingarnar til en að rannsóknin hafi verið gerð við ýktar aðstæður og að engar niðurstöður liggi fyrir um það hvaða áhrif umrædd efni hafi við eðlilegar aðstæður. “Framleiðendur eru mjög meðvitaður um það að neytendur geta verið viðkvæmir fyrir aukaefnum í matvælum og drykkjarföngum. Það er þó mikilvægt að taka það fram að ekki er um nokkurs konar hættu, tengda þessum aukaefnum, að ræða”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert