Norðvesturleiðin hefur opnast vegna bráðnunar

Beinasta siglingarleiðin á svonefndri Norðvesturleið milli Atlantshafs og Kyrrahafs um heimskautasvæði Kanada vestan Grænlands er nú að fullu opin í fyrsta skipti, að sögn Evrópsku geimferðastofnunarinnar. Þessi leið hefur alltaf verið lokuð vegna íss en stofnunin segir, að ísinn á þessu svæði hafi stöðugt verið að minnka og nú sé svo komið að hægt sé að sigla þarna í gegn.

Evrópska stofnunin segir að ísinn hafi verið að minnka á undanförnum árum en gervihnattamyndir sýni, að bráðnunin hafi aldrei verið meiri en í ár. Því sé norðvesturleiðin svonefnda fær í fyrsta skipti frá því byrjað var að fylgjast með henni árið 1978.

Stofnunin segir að ís á norðausturleiðinni svonefndu, um Norður-Íshaf Rússlandsmegin, hafi einnig verið að minnka og sé nú aðeins lokuð að litlum hluta.

Þegar hefur komið til alþjóðlegra deilna vegna þeirra hagsmuna, sem opnun þessara siglingaleiða skapar. Kanada segist hafa fullan yfirráðarétt yfir þeim svæðum þar sem norðvesturleiðin liggur um kanadískt hafsvæði og það geti því bannað siglingar á þeim svæðum. Bandaríkin og Evrópusambandið hafa dregið það í efa og segja að þetta sé alþjóðleg siglingaleið sem allir geti notað.

Umfjöllun um auðlindabaráttu

Rannsóknarskip í hafís.
Rannsóknarskip í hafís.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert