Útrýma á rottunum á Rottueyju

Á Rottueyju.
Á Rottueyju. Reuters

Rottur námu fyrst land á eyjunni sem nú er við þær kennd fyrir tvö hundruð árum, þegar þar varð skipsskaði, en nú eru yfirvöld í Alaska að leggja á ráðin um að útrýma rottunum á eynni. Rottueyja er í Aleútaeyjaklasanum, sem teygir sig í suð-vestur frá Alaska. Þar er iðandi rottulíf, sem hefur reynst mikið skaðræði fyrir fuglalíf á eyjunni.

Haft er eftir Art Sowls, líffræðingi í Alaska, að rotturnar hafi að mestu gert úti um möguleika annarra dýrategunda á að þrífast á eyjunni. Hann segir að eftir um það bil mánuð muni liggja fyrir tillögur að því hvernig rottunum verði útrýmt. Gæta þarf þess, að aðrar tegundir hljóti ekki skaða af. Reyndar er lítið annað dýralíf orðið eftir á eynni, sem er ennfremur ekki stór.

Rotturnar komu til eyjarinnar með japönsku skipi sem strandaði þar 1780, og hafa síðan orðið milljónum sjófugla að fjörtjóni, en þeir hafa verpt á eyjunni og eru varnarlausir gagnvart ferfættum rándýrum.

Rottur eru mikið vandamál á fjölmörgum afskekktum eyjum á jörðinni. Líffræðingar segja að tekist hafi að útrýma þeim á yfir 250 eyjum, þ.á m. á Campbell-eyju, suður af Nýja Sjálandi, og Langaraeyju í British Columbia.

Rottur eru taldar hafa orðið valdar að útrýmingu um helmings þeirra ýmsu tegunda sem dáið hafa út í heiminum síðan á sautjándu öld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert