A380 í fyrsta farþegaflugið á fimmtudaginn

Flugfreyja býr um rúm í einkaklefa á fyrsta farrými í …
Flugfreyja býr um rúm í einkaklefa á fyrsta farrými í A380 þotu Singapore Airlines. AP

Tveggja hæða risaþota evrópsku flugvélasmiðjanna Airbus, A380, fer í sitt fyrsta farþegaflug á fimmtudaginn. Það er vél í eigu Singapore Airlines sem fer frá Singapore til Sydney með farþega sem keyptu farmiðana á uppboði á vefnum, en andvirði miðanna rennur til góðgerðarmála.

A380 er stærsta farþegaþota sem nokkru sinni hefur verið smíðuð. Hönnun hennar og smíði fór langt fram úr kostnaðaráætlun og tafðist um hálft annað ár. Vélin getur mest flutt 850 farþega í einu.

Julian Hayward, 38 ára Breti sem býr í Syndey, greiddi hæsta verðið fyrir miðann í fyrsta flugið, rúmlega eitt hundrað þúsund Bandaríkjadollara. Hann mun sitja í sæti 1A. Sagðist hann alveg sáttur við að hafa greitt þetta verð fyrir að „komast á spjöld sögunnar.“

Í þotu SIA eru 399 sæti á almennu farrými, 60 á viðskiptafarrými og 12 lokaðir einkaklefar með rúmum, uppbúnum með sængurverum hönnuðum af Givenchy.

Reglubundið áætlunarflug SIA til Sydney á A380 mun síðan hefjast á sunnudaginn. Flug til London hefst í febrúar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert