Stærsti heiti reitur í heimi

Seltjarnarnes verður allt gert að einum stórum heitum reit samkvæmt samkomulagi sem bæjaryfirvöld á Seltjarnarnesi og Vodafone hafa gert með sér. Með þessu verður bærinn stærsti heiti reitur í heimi að sögn bæjaryfirvalda.

Samkomulagið felur í sér, að íbúar Seltjarnarness, fyrirtæki og gestir í bænum komast í þráðlaust háhraða netsamband hvar og hvenær sem er. Vodafone annast uppbyggingu og rekstur þessa þráðlausa netkerfis en Seltjarnarnesbær leggur fram rafmagn og aðstöðu þar sem hægt er að koma fyrir nauðsynlegum búnaði.

Bæjarstjóri Seltjarnarness segir að með þessu sé verið að bæta lífsskilyrði þeirra sem lifa og starfa í bæjarfélaginu. Hann segir jafnframt að verið sé að búa sveitarfélagið undir framtíðina hvað varðar gagnaflutninga, en nú þegar er búið að ljósleiðaravæða bæinn. Auk þess eigi bærinn í samkeppni við önnur sveitarfélög um íbúa. Bæjaryfirvöld líti því á þetta sem einn þátt sem geri Seltjarnarnes samkeppnisfært og aðlaðandi fyrir fólk sem býr í bænum og ekki síst fyrir þá sem vilja setjast að í sveitarfélaginu.

Gert er ráð fyrir því að kerfið verði komið upp á Seltjarnarnesi á vordögum.

Samkvæmt upplýsingum frá Símanum varð allt höfuðborgarsvæðið að einum heitum reit þegar Síminn opnaði 3G net sitt fyrir markaði í september á þessu ári. Það hefur í för með sér að allir sem búa á höfuðborgarsvæðinu geta í dag verið í þráðlausu netsambandi hvar sem er innan höfuðborgarsvæðisins með 3G netkorti Símans, samkvæmt upplýsingum frá Símanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert