Tilkynnt um Google farsíma á næstu vikum

Google verður æ stærri hluti af lífi netverja
Google verður æ stærri hluti af lífi netverja AP

Dagblaðið Wall Street Journal segir frá því í dag að leitarvélarrisinn Google hyggist á næstu tveimur vikum senda frá sér röð tilkynninga þar sem orðrómur um Google farsímann, eða gPhone eins og gárungar hafa kallað hann verði staðfestur. Blaðið segir þó að ekki sé í raun um síma að ræða heldur stýrikerfi fyrir farsíma, sem hægt verði að nota við ýmsar gerðir síma, þar sem helstu forrit Google, sem þróuð hafa verið fyrir farsíma fara saman, leit, tölvupóstur, kortaleit, YouTube og skyndiskilaboðaþjónusta svo nokkuð sé nefnt.

Þá eru leiddar líkur að því að stýrikerfið verði jafnvel ókeypis og að það verði byggt á Linux stýrikerfinu. Þá segir að hverjum sem er verði frjálst að þróa hugbúnað fyrir síma sem búnir verða Google farsímastýrikerfinu, sem er nýjung á bandarískum farsímamarkaði en þar setja farsímafyrirtæki yfirleit mikil takmörk á það hvers konar hugbúnað er hægt að setja inn á síma, og gera jafnvel óvirka kosti á borð við þráðlausa nettengingu, svo hægt sé að sérstaklega fyrir nettengingu með símum.

Samkvæmt heimildum WSJ verða fáar slíkar takmarkanir á notkun síma með stýrikerfinu og möguleikarnir því margir ef vélbúnaður símans býður upp á það, svo sem samtengingu korta við GPS tæki.

Talið er að Google sé að gera samninga við bandaríska símfyrirtækið T-Mobile, sem margir telja neytendavænasta símfyrirtækið vestanhafs, engar sögur fara þó af því hvenær stýrikerfið verði gefið út í Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert