Kostnaðarsamur hnappur hjá Google

Leitarfyrirtækið Google tapar allt að 110 milljónum dala á ári, eða tæplega sjö milljörðum króna, á hnappi einum á vefsíðunni sem verið hefur til staðar frá því vefurinn var opnaður árið 1998. Hnappinn kannast flestir við, en á honum stendur „I'm feeling lucky", sem þýtt er sem „Vogun vinnur, vogun tapar" á íslensku útgáfu leitarvélarinnar.

Ástæða þess að féð tapast er sú að með því að nota hnappinn er farið beint á þá vefsíðu sem vélinni þykir líklegast að leitarorðin eigi við um. Þar með tapast dýrmætar tekjur af auglýsingum sem birtast með leitarniðurstöðum að öllu jöfnu.

Hnappurinn hefur verið á vefnum síðan hann var opnaður og er eitt af höfuðeinkennum hennar ásamt vörumerki Google, innsláttarsvæðinu og leitarhnappinum sjálfum.

Marisa Mayer, aðstoðarforstjóri Google segir ástæðuna fyrir því að hnappurinn er enn til staðar einfaldlega vera þá að forðast að síðan verði of þurr og fyrirtækjaleg og snúist alfarið um að hagnast. „Vogun vinnur, vogun tapar minnir á að hjá Google starfa manneskjur sem hafa persónuleika."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert