Nova boðar breytta tíma – öll netnotkun í farsímann

Höfuðstöðvar Nova við Lágmúla í Reykjavík.
Höfuðstöðvar Nova við Lágmúla í Reykjavík. mbl.is/Brynjar Gauti

Nova, nýtt íslenskt samskiptafyrirtæki í eigu Novators, opnar formlega verslun og þriðju kynslóðar farsímaþjónustu sína í dag, 1. desember. Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova, segir fyrirtækið boða breytta tíma í notkun farsímans.

„Okkar áhersla liggur í notkun netsins í gegnum símann og þær breytingar sem eru að verða á farsímanum. Þetta er svo mikið meira en bara sími.“

Liv segir Nova opna nýjar dyr að stærsta skemmtistað í heimi, sem sé netið. Fjölmargt verði í boði fyrir viðskiptavini. Má þar nefna að hægt er að spjalla við aðra á MSN, blogga, höndla tölvupóst, skoða myndskeið og hafa aðgang að öðru því sem netið hefur upp á að bjóða. Allt í gegnum símann.

Ein nýjungin eru svokallaðir Vinatónar, í staðinn fyrir hefðbundinn biðsón í símanum er spiluð tónlist sem sá sem hringt er í hefur valið. Og hægt er að spila mismunandi tónlist eftir því hver hringir.

Þriðju kynslóðar (3G) farsímatæknin hefur í för með sér aukinn gagnaflutningshraða auk sítengingar við háhraðanet, líkt og er með ADSL-nettengingar. Til að nýta tæknina þarf farsíma sem styður hana. Í nýrri verslun Nova í Lágmúla 9 eru slíkir símar seldir og boðið upp á þjónustu við notkun þeirra. Að auki hefur vefurinn nova.is verið opnaður en þar er DJ Nova talsmaður fyrirtækisins. „Nova er nýtt samskiptafyrirtæki og miklu betra en gömlu símafyrirtækin,“ sagði DJ Nova í léttum tón á blaðamannafundi Nova í gær og bauð fundarmenn velkomna til framtíðarinnar.

Myndsímtöl hjá Nova munu kosta það sama og önnur símtöl en greitt er fyrir netnotkun í símanum eftir gagnamagni, eins og er með netnotkun í tölvum.

Nova er í eigu fjárfestingarfélagsins Novators, sem hefur m.a. sérhæft sig í fjárfestingum á sviði fjarskipta. Novator er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar. Félagið fékk tilraunaleyfi fyrir þriðju kynslóðar farsímakerfi árið 2006 og formlegt rekstrarleyfi, ásamt Símanum og Vodafone, í mars síðastliðnum.

Vefur Nova

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert