Nóbelsverðlaunahafi með svört gen

James Watson.
James Watson. AP

Fyrrum Nóbelsverðlaunahafi, sem olli uppnámi með því að fullyrða að blökkumenn væru ekki eins gáfaðir og hvítir menn, á að öllum líkindum svarta áa. Þetta kom í ljós þegar Íslensk erfðagreining rannsakaði erfðamengi vísindamannsins.

Bandaríski vísindamaðurinn James Watson, sem fékk Nóbelsverðlaunin í læknisfræði árið 1962 fyrir rannsóknir á uppbyggingu erfðaefnisins, hefur oft vakið athygli fyrir yfirlýsingar sínar. Árið 1997 lýsti hann m.a. þeirri skoðun, að leyfa ætti konu að fara í fóstureyðingu ef hægt væri að sýna fram á að ófætt barn hennar yrði samkynhneigt.

Þá neyddist Watson til að segja af sér sem yfirmaður rannsóknastofnunar í New York eftir að hann lét falla ummæli um gáfnafar Afríkumanna. Sagðist hann í viðtali hafa miklar áhyggjur af framtíð Afríku, því öll félagsleg stefna gagnvart Afríkubúum byggðist á því að þeir væru jafn skynsamir og hvítir menn þótt allar rannsóknir bentu til þess gagnstæða.

Aðrir vísindamenn, sem stundað hafa erfðafræðilegar rannsóknar, lýstu því í kjölfarið yfir að ekki væri hægt að draga slíkar ályktanir af DNA rannsóknum.

Watson birti erfðamengi sitt opinberlega á netinu í byrjun ársins. Breska blaðið Independent  segir, að Íslensk erfðagreining  hafi nú rannsakað erfðamengið og komist að þeirri niðurstöðu, að 16% gena hans megi rekja til svarts forföður af afrískum uppruna. Þetta hlutfall er innan við 1% hjá þeim sem eru af hreinum evrópskum uppruna.

„Hlutfallið er svipað og búast mætti við hjá þeim, sem á afa eða ömmu af afrískum uppruna," hefur blaðið eftir Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar.  „Það kom mjög á óvart að sjá þessar niðurstöður hjá Jim.

Watson hefur ekki tjáð sig um þessar fréttir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert