ESB íhugar að taka upp frönsk netlög

mbl.is/Júlíus

Í vor ganga í gildi ný lög í Frakklandi um netnotkun og munu franskir netnotendur eiga á hættu að missa nettengingar sínar ef þeir eru staðnir að því að hlaða niður ólöglegu efni. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins íhugar nú að setja á svipuð lög í öllu sambandinu.

Frönsk stjórnvöld skrifuðu undir samninga við netveitur og réttindahafa í nóvember sl. og miða lögin að því að stöðva niðurhal á höfundarréttarvörðu efni, einkum tónlist og kvikmyndum.

Ætlunin er að komið verði á fót sérstakri stofnun sem hafa mun eftirlit með netnotkun þeirra sem tilkynnt hefur verið að séu að hlaða niður efni á ólöglegan hátt.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur nú til meðferðar tillögu um að sömu aðferðir verði teknar upp í öllu sambandinu.

Fréttavefur danska blaðsins Berlingske Tidende hefur eftir Agnete Sigurd, lögfræðingi dönsku neytendasamtakanna að slík úrræði séu ótæk þar sem ekki sé hægt að taka aðgang fólks að tölvupósti og mikilvægum upplýsingum sem séu sjálfsögð mannréttindi, og að slík refsing sé í engu samræmi við brotin sem um ræðir. Þá bendir hún á að netnotendur séu oft ekki vissir um það hvaða efni megi sækja á netið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert