Almyrkvi á tungli annað kvöld

Árvakur/Brynjar Gauti

Almyrkvi á tungli verður aðfaranótt fimmtudags og verður hann sjáanlegur frá vestuhluta Evrópu og Afríku, austurhluta Bandaríkjanna og frá Mið- og Suður Ameríku. Tunglmyrkvi verður þegar sól, jörð og tungl ber saman svo jörðin skyggir á tunglið og drungaleg rauð slikja færist yfir það.

Í almanaki Háskóla Íslands segir að tungl sé í suð-suðaustri frá Reykjavík séð þegar það snertir hálfskuggann þrjátíu og fimm mínútum eftir miðnætti.

Hálfskugginn er daufur og verður myrkvinn ekki áberandi fyrr en tungl gengur í alskuggann kl. 1:43. Tunglið verður almyrkvað frá klukkan 3 til 3:52 en miður myrkvi er klukkan 3:26. Tunglið er svo laust við alskuggann kl. 5:09  og við hálfskuggann klukkan 6:17 á fimmtudagsmorgun.

Sagan segir að landkönnuðurinn Kristófer Kólumbus hafi bjargað lífi sínu árið 1504 með þekkingu sinni á gangi himintunglanna.

Kólumbus var ásamt áhöfn sinni strandaglópur á eynni Jamaíku og voru vistir mjög af skornum skammti. Innfæddir voru fjandsamlegir og neituðu að útvega Kólumbusi og mönnum hans mat.

Kólumbus er þá sagður hafa litið á almanak sem þýskur stærðfræðingur hafði gert og áttað sig á því að almyrkvi á tungli yrði þann 29. febrúar árið 1504. Hann kallaði saman höfðingja innfæddra og varaði þá við því að ef þeir ekki yrðu samvinnuþýðir myndi hann láta tunglið hverfa af himni næstu nótt.

Þegar svo rættist úr hótunum Kólumbusar urðu innfæddir skelkaðir og grátbáðu hann um að koma mánanum aftur fyrir á sínum stað, sem hann þá gerði gegn því að fá þær vistir sem hann þurfti á að halda. Kólumbusi og mönnum hans var svo bjargað af eynni í júní sama ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert