ADHD: Hjartanærandi aðferðir gefast vel

 Á námskeiðinu einblínir Gréta á það hvernig best er fyrir foreldra að tala við börnin þannig að þau hlusti og læri. En það er einn liður hinnar hjartanærandi uppeldisaðferðar. „Ég á sjálf 12 ára son sem er greindur með ADHD með mótþróaþrjóskuröskun og hef notað aðferðina á hann. Í framhaldi af því hefur orðið alveg ótrúlega jákvæð breyting á honum þrátt fyrir mörg áföll á leiðinni,“ segir Gréta sem áður hafði reynt margvíslegar aðferðir án árangurs.

Að leyfa tilfinningar

„Það er svo mikilvægt að tala rétt við börnin og spegla það sem þau segja. Ef barn kemur t.d. öskureitt heim úr skólanum og finnst hann ömurlegur er betra að segja; Já, ég heyri að þér finnst skólinn hundleiðinlegur, frekar en að segja eitthvað í dúr við nei, nei, þér finnst skólinn ekkert ömurlegur, sem flestir foreldar eru fljótir að segja. Þannig leyfum við barninu að hafa sínar tilfinningar og barnið veit að hlustað er á það,“ segir Gréta. Hún segir aðferðina byggja á þremur þrepum sem séu í raun svo ótrúlega einföld að fólk trúi því ekki fyrr en það reyni þau sjálft. „Í fyrsta lagi er að hrósa barninu um leið og það framkvæmir hlutina. Annars vegar fyrir reynsluna eða það sem barnið hefur þegar gert og loks er það hin svokallaða forvarnarviðurkenning. Hún byggist á því að segja eitthvað í dúr við: Takk Atli minn fyrir að láta Söndru vera og leyfa henni að læra í friði,“ eins og ég segi stundum við strákinn minn,“ segir Gréta. Þessi leið sé best til að kenna börnum reglurnar frekar en að skamma þau þegar illa fer því börn sæki í neikvæða athygli rétt eins og fullorðnir gera.

Myndi nýtast vel í skólum

Gréta segist gjarnan mundu vilja að skólarnir nýttu sér þrepin þrjú þar sem þau séu mjög svo einföld fyrir kennara að tileinka sér. Síðasta námskeið hafi verið vel sótt enda grípi foreldrar sem allt hafa reynt nýjar og árangursríkar aðferðir feginshendi. „Staðreyndin er sú að foreldrar kenna sér um og fá gjarnan óbein skilaboð frá yfirvöldum og skóla um að þeir séu ómögulegir uppalendur. Um leið og barnið finnur að foreldrarnir hafa áhuga á því sem það er að gera nær það hins vegar að einbeita sér mun betur og viðfangsefnið verður spennandi. Þannig býr maður til velgengni fyrir börnin samhliða daglegu skipulagi þar sem orku barnsins er beint í skipulagðan farveg og leyft að njóta sín,“ segir Gréta.
Í hnotskurn
Athyglisbrestur og ofvirkni er taugaþroskaröskun sem getur haft víðtæk áhrif á daglegt líf, nám og félagslega aðlögun. ADHD er alþjóðleg skammstöfun og stendur fyrir Attention Deficit Hyperactivity Disorder eða athyglisbrest og ofvirkni.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert