Hvetja Microsoft til að taka Windows xp ekki af markaði

Windows Vista er nýjasta stýrikerfið frá Microsoft hugbúnaðarrisanum.
Windows Vista er nýjasta stýrikerfið frá Microsoft hugbúnaðarrisanum. Reuters

Einlægir aðdáendur stýrikerfisins Windows xp róa nú að því öllum árum að fá Microsoft til að taka kerfið ekki af markaðinum í júní, eins og til stendur, og segja það mun betra en arftakann, Vista, sem sé meingallaður.

Microsoft setti xp á markað fyrir sex árum, og hefur boðað nýtt kerfi, Windows 7, eftir tvö ár.

Þrátt fyrir að Microsoft hafi reynt eftir mætti að telja neytendur á að nota Vista hafa margir þráast við. Kvartað hefur verið undan því hve vélbúnaðarfrekt nýja kerfið sé, það virki ekki sem skyldi og komið hafi upp tilvik þar sem það reynist ósamhæft öðrum forritum og tækjum, og að auki sé mikið af pirrandi sprettigluggum í því.

Tölvunotendum sem ekki kæra sig um Vista, en eru einkar sáttir við xp, líst ekkert á að xp hverfi úr hillum verslana og ekki verði hægt að fá aðstoð vegna þess á næstu árum.

Meðal annars er verið að safna undirskriftum á vefnum Save XP, og hafa yfir 100.000 xp-aðdáendur skrifað þar nöfn sín og fjölda athugasemda. Hvetja þeir Microsoft til að halda áfram að selja xp uns 7 kemur á markaðinn.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert