Mannkynið var í alvarlegri útrýmingarhættu

Mannkynið var í alvarlegri útrýmingarhættu fyrir um 70.000 árum samkvæmt niðurstöðum erfðaefnisrannsóknar bandarískra vísindamanna. Einungis um 2.000 manneskjur voru þá á lífi og bjuggu hópar þeirra einangraðir á nokkrum stöðum í Mið-Afríku. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar má rekja mikla fækkun meðal mannkynsins á þessum tíma til mikillar þurrkatíðar og fjölgaði mönnum ekki að ráði á ný fyrr en í upphafi steinaldar.„Þetta voru litlir hópar af menneskjum á barmi útrýmingar, sem hörð náttúran hélt einangruðum hver frá öðrum. Þeir urðu síðan sterkari og lögðu undir sig allan heiminn. Þetta er í raun falleg saga sem skrifuð er í erfðaefni okkar,” segir Spencer Wells vísindamaður  við bandarísku náttúrufræðistofnunina National Geographic Society.

Bretinn Meave Leakey, sem er einn virtasti sérfræðingur um sögu mannsins, segir niðurstöðurnar stórmerkilegar. „Hver hefði trúað því að fyrir einungis 70.000 árum síðan hafi tegundin verið á barmi útrýmingar,” segir hann.

Vinna við rannsóknina hófst árið 2005 og hafa niðurstöður hennar einnig leitt í ljós að hópar manna fóru fyrst að flytja sig frá Afríku fyrir um 60.000 árum síðan.  Til samanburðar eru nú um 600 fjallagórillur eftir á jörðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert