Vatíkanið segir ekki hægt að útiloka líf á öðrum hnöttum

ET.
ET.

Æðsti stjörnufræðingur páfans segir að ekki sé hægt að útiloka að líf sé á Mars. Vitsmunaverur sem Guð hafi skapað kunni að vera til á öðrum hnöttum. Leit að lífi annars staðar en á jörðinni stangist ekki á við trú á Guð.

Frá þessu greinir BBC. Stjörnufræðingur páfa, faðir Gabríel Funes, er virtur vísindamaður sem á í samstarfi með háskólum um allan heim. Hann skrifar grein í dagblað Vatíkansins undir fyrirsögninni: „Geimverur eru bræður mínir.“

Funes er spurður um fordæmingu kaþólsku kirkjunnar á ítalska stjörnufræðingnum Galíleó fyrir fjórum öldum, og svarar hann á þá leið að mistök hafi verið gerð, og tími sé kominn til að snúa við blaðinu.

Funes segir ennfremur að vísindi og trú þurfi á hvort öðru að halda, og að margir vísindamenn trúi á Guð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert