Netnotendur verða sífellt óbilgjarnari

AP

Notendur netsins verða sífellt óbilgjarnari og meira sjálfbjarga á vefnum, samkvæmt niðurstöðum nýrra rannsókna. Árleg skýrsla hins þekkta netkönnuðar Jakobs Nielsen leiðir í ljós að þolinmæði netnotenda verður sífellt minni.

Þetta kemur fram í frétt BBC.

Margir notendur hafa engan áhuga á að staldra við á vefjum og skoða það sem þar er í boði, heldur vilja komast rakleitt að ákveðnu marki sem þeir vita fyrirfram hvert er, finna þar það sem þeir leita að, og fara.

Flestir virða að vettugi alla viðleitni til að fá þá til að staldra við, og láta ekki glepjast af auglýsingum sem eiga að ná athygli þeirra.

BBC hefur eftir Nielsen að samkvæmt mælingum takist nú um 75% netnotenda að finna það sem þeir leita að, en 1999 var þetta hlutfall sextíu af hundraði.

Fyrir þessu eru aðallega tvær ástæður, segir hann:

Hönnun vefja hefur batnað til muna, og notendur eru orðnir vanari hinu gagnvirka umhverfi sem netið er.

Núorðið eru notendur mun meira sjálfbjarga á netinu. Þeir vita hvað þeir vilja og hvernig best er að nálgast það. Þetta gerir að verkum, segir Nielsen, að notendur eru óbilgjarnari og láta síður tilleiðast að „skoða sig um“ og athuga það sem boðið er upp á og reynt að nota til að fanga athygli þeirra.

„Netnotendur hafa alltaf verið óbilgjarnir, en þeir verða það í síauknum mæli,“ hefur BBC eftir Nielsen.

En hann kveðst aftur á móti telja að þeir sem halda úti vefsetrum hafi ekki enn áttað sig á því hversu sjálfbjarga notendur séu orðnir.

Nielsen segir ennfremur, að breyting hafi orðið á því hvernig netnotendur nálgist það sem þeir séu á höttunum eftir. Notkun á leitarvélum hafi snaraukist.

Í fyrra fóru aðeins um 25 af hundraði þá leið, að finna fyrst vefsetur og fikra sig síðan áfram, hlekk af hlekk, uns áfangastaðnum var náð. Allir hinir notuðu leitarvélar til að fara beina leið á nákvæmlega þann stað sem leitað var að.

„Leitarvélar ráða einfaldlega lögum og lofum á vefnum,“ segir Nielsen.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert