Áfengi minnkar líkur á liðagigt

Reuters

Þeir sem drekka að meðaltali fimm glös af léttvíni á viku eru ólíklegri til þess að fá liðagigt. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem unnin var hjá Karólínska sjúkrahúsinu í Svíþjóð. Um tvær rannsóknir er að ræða og tóku 2.750 manns þátt í þeim. Hins vegar leiddu þær í ljós að einn mesti áhættuþátturinn eru reykingar, líkt og fyrri rannsóknir hafa sýnt.

Niðurstaða rannsóknanna bendir til þess að það eru 50% minni líkur á að fá liðagigt ef áfengi er neytt í hófi en um leið er tekið fram að ofneysla áfengis sé slæmt fyrir heilsuna, að því er segir á fréttavef BBC.

Á Vísindavef Háskóla Íslands kemur fram að orsakir liðagigtar eru óþekktar en hann er talinn stafa af flóknu samspili erfða og umhverfisþátta. Liðagigt (rheumatoid arthritis) er venjulega flokkuð sem sjálfsofnæmissjúkdómur en í slíkum sjúkdómum ræðst ónæmiskerfi líkamans gegn eigin frumum og skemmir þær. Sjúkdómurinn er langvarandi, nánast ólæknandi, og lýsir sér með bólgum og skemmdum í liðamótum á útlimum, venjulega sömu liðum hægra og vinstra megin.

Um 1-2% fólks fær sjúkdóminn en hann er 2-3 sinnum algengari hjá konum en körlum. Sjúkdómurinn virðist vera ámóta algengur meðal allra kynþátta, hvar sem er í heiminum. Fólk getur veikst af liðagigt hvenær sem er ævinnar, frá ungabörnum til aldraðra, en algengast er að fólk veikist á aldrinum 25 til 50 ára.

Liðagigt getur byrjað skyndilega en algengara er að sjúkdómseinkennin komi fram hægt og bítandi á löngum tíma. Um er að ræða bólgur og verki í liðum, venjulega mest áberandi í höndum og fótum. Margir liðir eru undirlagðir og oftast er sem fyrr segir um að ræða sömu liðina vinstra og hægra megin (fingur, úlnliðir, tær, ristar, olnbogar og ökklar).

Til viðbótar við bólgur og verki fylgir liðagigt áberandi stirðleiki í liðunum sem varir í meira en hálfa klukkustund að morgni eða eftir langa hvíld. Þessu geta fylgt almenn einkenni eins og þreyta og hitavella. Gigtarhnútar í húðinni, oftast 1-3 cm í þvermál, eru venjulega ekki áberandi í byrjun en koma þegar frá líður og eru nokkuð einkennandi fyrir þennan sjúkdóm.

Í rannsóknunum sem BBC vísar til voru þátttakendur spurðir út í lífstíl, meðal annars um reykingar og áfengisneyslu. 

Haft er eftir Henrik Kallberg sem vann að rannsóknunum að reykingar eru einn mesti áhættuvaldur liðagigtar og er það í samræmi við fyrri rannsóknir.

Fréttin á vef BBC
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert