Apple kynnir ódýrari 3G iPhone farsíma

Framkvæmdastjóri Apple, Steve Jobs, kynnti í dag aðra kynslóð af iPhone farsímanum á þróunarráðstefnu fyrirtækisins í San Francisco.  Nýi iPhone síminn verður búinn 3G tækni og sagði Jobs að nýi síminn yrði ódýrari en fyrsti síminn, og mun hann kosta 199 dollara í Bandaríkjunum, eða jafnvirði um 15.000 króna.  Til samanburðar kostaði fyrsti iPhone síminn 599 dollara, eða um 45.000 krónur, þegar hann kom fyrst á markað, og sagði Jobs hátt verð símans hafa verið ein ástæða að fólk keypti ekki símann.

3G iPhone síminn verður með GPS staðsetningarbúnaði, og með nýjum hugbúnaði sem gerir notendum kleift að senda og taka við fyrirtækjatölvupósti, á sama hátt og notendur Blackberry símans gera með Microsoft Exchange tölvupóstsforritinu. 

Jobs sagði hugbúnaðinn í iPhone 2 koma til móts við eftirspurn notenda innan fyrirtækja, en með þessu keppir Apple við Blackberry og Nokia sem eru allsráðandi á markaði hjá viðskiptanotendum.

Að sögn Jobs, mun nýi síminn hlaða niður efni með þrisvar sinnum meiri hraða en fyrsta útgáfa símans sem kom út í júní í fyrra. 

John Delaney, sérfræðingur hjá ráðgjafafyrirtækinu IDC, varð fyrir vonbrigðum með kynningu á nýja símanum og segir að allir hafi vitað að síminn myndi verða með 3G tækni og staðsetningarbúnaði. 

Nýi 3G iPhone síminn mun koma á markað 11. júlí í 22 löndum, og hét Jobs því að halda lágu verði símans í fleiri löndum en Bandaríkjunum.  Delaney sagðist ekki sannfærður um að Apple gæti staðið við það.   Sex milljónir iPhone síma hafa selst frá því á fyrra, og áætlar fyrirtækið að 10 milljónir síma muni hafa selst í lok ársins 2008, að því er fram kemur á fréttavef BBC.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert