Simpansar róa hver annan með kossum og knúsi

Simpansar.
Simpansar. Reuters

Flestum þykir bót í góðu knúsi og samúð ef á bjátar, og nú hefur rannsókn leitt í ljós að þetta á einnig við um simpansa. Vísindamenn komust að því, að það dró úr streitu hjá simpönsum sem urðu fyrir barðinu á öðrum ef sá þriðji huggaði þá með kossi og knúsi.

„Huggunin var yfirleitt fólgin í kossi eða knúsi,“ sagði dr. Orlaith N. Fraser, sem starfar við Þróunarmannfræðistofnun John Moores-háskóla í Liverpool. Þetta sé einkum athyglisvert vegna þess að svona atferli sjáist yfirleitt ekki nema eftir átök. 

Atferlið leiddi til þess að heldur dró úr streituhegðun þess sem hafði orðið fyrir barðinu á öðrum, að því er Fraser og samstarfsmenn hennar greina frá í Proceedings of the National Academy of Sciences í gær.

Aðrir vísindamenn segja niðurstöðurnar mikilvægar vegna þess að þær sýni fram á tengsl huggunar og minnkaðrar streitu. Fyrri rannsóknir hafi bent til þess að huggun hefði engin áhrif á streitu.

Rannsókn Frasers og félaga dragi úr vafa um að huggun feli í raun og veru í sér það sem í orðinu felist, þ.e. færi þeim létti sem sætt hafi harðræði. Líklegt megi telja, að huggunaratferli tjái samúð.

Simpansar eru erfðafræðilega skyldastir mönnum, og telja vísindamenn að þessar vísbendingar um að þeir sýni hver öðrum samúð sé ef til vill hliðstætt hegðun mannabarna sem kölluð sé „samúðarumhyggja“ og feli í sér að börnin snerta og faðma ástvini. Þetta atferli barnanna sé í raun það sama og hjá simpönsunum, og því sé ekki fráleitt að telja þetta hliðstætt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert