Falskt bros borgar sig ekki

Ný rannsókn sem gerð  var við háskólann í Aberdeen í Skotlandi bendir til þess að vilji karl fá konu til að dansa við sig skipti það sköpum að hann leggi hönd á handlegg hennar á sama tíma og hann býður henni upp í dans. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Samkvæmt könnuninni þiggja tvær af hverjum þremur konum boð um dans leggi menn hendur létt á handleggi þeirra um leið og þeir bjóða þeim upp. Konur þiggja hins vegar einungis annan hvern dans sem þeim er boðið upp í leggi menn ekki hendur á handleggi þeirra.

Það sama á við um beiðni karla um að fá símanúmer ókunnugra kvenna á götum úti. Fram kemur í tímaritinu Focus Magazine að konurnar hafi skýrt þessa hegðun sína með því að karlmaður sem snerti þær virki ákveðnari og um leið meira aðlaðandi en maður sem geri það ekki.

Dr. Ben Jones, sem stóð að rannsókninni, segir að hún hafi einnig leitt í ljós fylgni á milli bross og augnsambands annars vegar og árangurs í þessum efnum hins vegar. Konur virðist þó eiga auðvelt með að greina hvort menn sem horfa brosandi í augu þeirra, hafi raunverulegan áhuga á þeim eða ekki.

„Bros gera fólk meira aðlaðandi, en það er gott að hafa það í huga að það er erfitt að þykjast brosa. Reyni maður það koma augun oftast upp um mann," segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert