Dularfulla „iPhone-stúlkan“ heldur vinnunni

Myndir af kínverskri verksmiðjustúlku sem komu í ljós í glænýjum iPhone sem seldur var í Bretlandi hafa vakið miklar umræður á netinu og spurningar um hver stúlkan sé, og hvort hún hafi verið rekin fyrir uppátækið.

Eigandi símans greindi frá því á spjallvefnum MacRumors.com að þegar hann kveikti á símanum í fyrsta sinn hafi hann fundið myndir af stúlkunni í verksmiðjunni þar sem síminn var framleiddur.

Á myndinni veifar stúlkan glaðlega, og breski iPhone-kaupandinn segir að svo virðist sem einhverjir hafi verið að skemmta sér við færibandið þar sem símarnir eru settir saman.

Fjölmargir skrifuðu athugasemdir við myndirnar á vefnum og veltu því m.a. fyrir sér að stúlkan virtist ekki vera eldri en 12 eða 13 ára, sem vekti spurningar um hvort Apple stuðlaði að barnaþrælkun, og aðrir spáðu því að stúlkan yrði rekin.

Fregnir herma að stúlkan vinni í verksmiðju í kínversku borginni Shenzhen, og að eigandi verksmiðjunnar sé fyrirtækið Foxconn Technology Group á Taívan, sem vinni fyrir Apple.

Blaðið South China Morning Post hafði í morgun eftir talsmanni Foxconn að starfsmenn verksmiðjunnar hafi verið að athuga hvort síminn virkaði ekki rétt, og hafi líklega gleymt að eyða myndinni af honum.

Annað kínverskt blað hafði í gær eftir yfirmanni hjá Foxconn, að stúlkan, sem blaðið kallaði „fallegustu verksmiðjustúlkuna í Kína“, hefði ekki verið rekin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert