Peter Higgs og Stepen Hawking deila um tilvist bóseindar

Leitin að bóseindinni fer fram í öreindahraðlinum í Cern
Leitin að bóseindinni fer fram í öreindahraðlinum í Cern

Keppinautarnir um Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði, prófessorarnir Peter Higgs og Stephen Hawking, virðast komnir í hár saman í kjölfar gangsetningar öreindahraðalsins hjá Cern í Sviss.

Peter Higgs hefur látið þau orð falla að rannsóknarvinna Stephen Hawking sé ekki „nógu góð“ í ljósi hugsanlegrar útkomu tilraunarinnar með öreindahraðalinn.

Higgs prófessor er að bregðast við ummælum sem Hawking lét falla í viðtali þar sem hann sló því fram í gamansömum tón að það yrði „meira spennandi“ ef niðurstaða rándýrrar tilraunarinnar hjá Cern yrði sú að bóseind Higgs eða „guðseindin“ eins og hún hefur verið kölluð, finnist ekki.

Hawking prófessor á einhverju sinni að hafa lagt undir 100 pund að eindin væri ekki til og hefur síðan haldið því fram að merkilegri niðurstöður fáist úr tilrauninni heldur en uppgötvun bóseindarinnar.

Í vísindaheiminum er talið er bóseind Higgs sé nánast nauðsynleg til skilnings á uppruna massans. Er hald vísindamanna að fljótlega eftir Miklahvell hafi margar eindirnar verið þyngdarlausar en seinna öðlast þyngd, þökk sé Higgs sviðinu.

Higgs prófessor sem setti fyrst fram kenninguna um tilvist eindarinnar fyrir 44 árum, hefur viðurkennt að hann hafi ekki lesið ritgerðina þar sem Hawking hafnar tilvist eindarinnar. „En ég hef lesið eina slíka sem hann skrifaði sem ég held að hann grundvalli á útreikninga sína. Og í sannleika sagt tel ég aðferðina sem hann beitir ekki nógu góða, “ hefur The Daily Telegraph eftir Higgs.

"Minn skilningur er að hann steypi saman öreindafræði og þyngdarafli... með þeim hætti sem enginn eðlisfræðingur á sviði öreindafræðinnar getur fallist á,“ segir hann ennfremur.

Talið er fullvíst að Higgs prófessor sem nú er 79 ára að aldri, hreppi Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði ef tilraunin í Cern staðfestir kenningu hans en Stephen Hawking gerir einnig tilkall til þeirra í gegnum sömu tilraun þó á öðrum forsendum sé.

Liðið geta þrjú ár þangað til tilraunin með öreindahraðalinn hjá Cern leiðir í ljós hvort Higgs hafi rétt eða rangt fyrir sér en hann segist sjálfur verða bæði undrandi og fyrir vonbrigðum ef í ljós komi að kenning hans standist ekki.

Stephen Hawking.
Stephen Hawking. Reuters
Peter Higgs.
Peter Higgs.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert