135 ára gömul ráðgáta leyst

Haustið 1872 hröktust 17 norskir selveiðimenn á land á Svalbarða undan vondu veðri. Um veturinn létust þeir allir, en aldrei hefur fengist svar við því, fyrr en nú, hvað varð þeim að aldurtila. Ýmsar getgátur hafa verið á kreiki um dánarorsökina, allt frá berklum eða skyrbjúg til hreinnar leti.

Frá þessu greinir fréttavefur Aftenposten, og hefur eftir Svalbardposten.

En nú hafa norskir vísindamenn komist að raun um, að blýeitrun varð selveiðimönnunum að bana. Í beinum í gröf sem tveir þeirra hvíla í fannst mikil blýþétting, segir Ulf Åsebö, sem starfar á Háskólasjúkrahúsi Norður-Noregs.

Í dagbók sem einn selveiðimannanna hélt kemur fram, að þeir hafi borðað mikið af niðursoðnum mat í húsinu sem þeir héldu til í á Svalbarða, Sænska húsinu svonefnda. Munu þeir hafa fengið eitrunina úr dósunum sem maturinn var í.

Åsebö og sagnfræðingurinn Kjell Kjær fengu leyfi til þess í júlí sl. að opna grafir selveiðimannanna, en þeir höfðu þá þegar sett fram þá kenningu að blýeitrun hefði orðið mönnunum að fjörtjóni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert