Rannsóknin: Börn smitast af fíkn foreldra

AP

Foreldrar sem reykja nálægt börnum sínum hætta á að gera þau háð nikótíni. Þetta kemur fram í rannsókn kanadískra vísindamanna, sem birtist í vísindaritinu Addictive Behaviors. Rannsóknin fól í sér að spurningalistar voru lagðir fyrir 1.800 börn á aldrinum 10 til 12 ára í 29 skólum í Quebec.

„Þar sem börn urðu fyrir óbeinum reykingum í nokkrum mæli, hvort heldur sem er á heimilum eða í bifreiðum, reyndust vera auknar líkur á því að börn lýstu einkennum þess að vera háð nikótíni,“ segir Jennifer O'Loughlin, einn rannsakendanna. „Þau sögðust vilja reykinn og þurfa hann – að þau væru líkamlega og andlega háð.“

Eitt af hverjum tuttugu

„Athugun okkar leiddi í ljós að 5% barna sem aldrei höfðu reykt sígarettu, en höfðu orðið fyrir óbeinum reykingum, lýstu einkennum þess að vera háð nikótíni,“ segir Matieu Bélanger, sem stýrði rannsókninni.

O'Loughlin segir hópinn hafa byggt á niðurstöðum fyrri rannsókna. „Óbeinar reykingar geta valdið einkennum sem líkjast nikótínfráhvarfi: depurð, svefntruflunum, skapstyggð, kvíða, óróa, einbeitingarskorti og aukinni matarlyst.“

Bélanger tekur fram að ekki hafi verið sýnt fram á orsakasamband. „Til þess þarf frekari rannsóknir. En þetta ætti að vera foreldrum umhugsunarefni.“
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert