Fingrafaralesarar í vasa breskra lögreglumanna

AP

Tuttugu lögreglumdæmi um gervallt England og Wales hafa tekið í notkun nýja tækni við að kanna fingraför manna á götum úti og bera saman við gagnagrunna á fáum mínútum. Ef vel tekst til er ætlunin að öll lögregluumdæmi í Bretlandi fái samskonar búnað innan 18 mánaða. Mannréttindasamtök mótmæla áformunum harðlega og segja nóg komið af eftirliti og tæknibúnaði sem fylgist með hverju fótmáli landsmanna.

Eftirlit með almennum borgurum er óvíða meira en í Bretlandi. Að minnsta kosti 4,3 milljónir eftirlitsmyndavéla hafa verið settar upp í landinu, auk hlerunarbúnaðar á almannafæri.

Lóftölvurnar sem lögregla fær nú til umráða gerir henni kleift að taka fingraför af fólki á götum úti og bera saman við fingraför rúmlega 8 milljóna manna í alþjóðlegum gagnagrunnum. Búnaðurinn getur líka tengst skrám alþjóðalögreglunnar Interpol og þannig má á innan við 5 mínútum kanna sakaskrá viðkomandi.

Sambærileg tækni er þegar notuð hjá lögrgelunni í Los Angeles í Bandaríkjunum.

Mannréttindasamtök segja að í kjölfar sprengjuárásanna í Lundúnum í júlí 2005 hafi heimildir lögreglu til að safna upplýsingum um almenning í gagnagrunna, verið stórauknar. Samtökin óttast að upplýsingar úr fingrafaratölvunum verði einnig geymdar í gagnagrunnum.

Bresk stjórnvöld hafa leynt og ljóst stefnt að aukinni upplýsingasöfnun um almenning í landinu. Í gagnagrunnum eru nú þegar til lífsýni úr 4 milljónum Breta eða 5,4% þjóðarinnar. Gagnagrunnurinn er ívið stærri en sambærilegur grunnur bandarískra stjórnvalda.

Þá eru uppi hugmyndir um að safna í sérstakan gagnagrunn, upplýsingum um öll símtöl og tölvupóstsendingar, auk netumferðar í Bretlandi.

Fyrir lok þessa árs verður öllum sem vinna í Bretlandi og koma frá löndum utan Evrópu, skylt að bera sérstök skilríki sem m.a. hafa að geyma fingraför.

Mannréttindasamtök hafa krafist þess að einungis verði hægt að taka fingraför af einstaklingi ef hann hefur gerst brotlegur við lög eða ef viðkomandi neitar að gera grein fyrir sér.

„Samkvæmt lögum og reglugerð má handtaka þann sem andmælir fingrafaratöku. Þar með eru ekki bara fingraför viðkomandi komin í gagnagrunn heldur líka lífsýni og þau má samkvæmt lögum, geyma í gagnagrunnum til æviloka, jafnvel þótt viðkomandi sé sýknaður af öllum ákærum,“ segir Phil Booth, talsmaður samtakanna NO2ID.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert